Nú væri hægt að blása Íslandsmótið af

Patrick Pedersen fagnar marki sínu í Kaplakrika í gær.
Patrick Pedersen fagnar marki sínu í Kaplakrika í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Valsmenn gerðu nánast út um Íslandsmótið 2020 með sannfærandi sigri á FH í Kaplakrika, 4:1, í gær. Það var eiginlega við hæfi að strax og leiknum lauk var jafnframt lokið tveimur þriðjuhlutum Pepsi Max-deildar karla á þessu tímabili, og þar með búið að uppfylla skilyrðin sem sett voru til bráðabirgða vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

KSÍ getur nú blásið Íslandsmótið af hvenær sem þörf krefur en lokaröð liðanna héðan af mun gilda sem lokastaða mótsins 2020. Ef það myndi gerast strax í dag yrði líklega lítið um mótmæli í úrvalsdeild karla. Valsmenn eru komnir með níu fingur á Íslandsmeistaratitilinn, ellefu stiga forskot eftir tíu sigurleiki í röð, og ekkert virðist geta komið í veg fyrir að Fjölnir og Grótta falli úr deildinni.

*Birkir Már Sævarsson skoraði tvö marka Vals og hefur þar með gert þrjú mörk í tveimur leikjum. Þetta er í fyrsta sinn sem Birkir gerir meira en tvö deildamörk á tímabili á Íslandi en hann skoraði mest fjögur mörk á tímabili fyrir Brann í Noregi árið 2011.

*Patrick Pedersen skoraði fyrir Val og Steven Lennon fyrir FH og þeir hafa nú gert 14 mörk hvor í deildinni.

„Menn geta ekki leyft sér að gefa Patrick Pedersen svigrúm ef þeir ætla að vinna meistaraefnin. Daninn skoraði í fyrri hálfleik og fékk auk þess tvö góð skallafæri á markteig í fyrri hálfleik. En kannski er þetta bara enn einn vitnisburðurinn um hversu erfitt er að halda honum niðri,“ skrifaði Kristján Jónsson m.a. um leikinn á mbl.is.

*Guðmann Þórisson miðvörður FH fékk rauða spjaldið eftir 58 mínútur. Hann hefur nú verið rekinn af velli tvisvar í sumar og fer því í tveggja leikja bann.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert