Tæpur fyrir landsleikinn mikilvæga

Kári Árnason á að baki 84 landsleiki fyrir íslenska karlalandsliðið.
Kári Árnason á að baki 84 landsleiki fyrir íslenska karlalandsliðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kári Árnason, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu og leikmaður Víkings í úrvalsdeild karla, fór meiddur af velli í gær þegar Víkingar töpuðu á útivelli gegn Fylki í Árbænum, 2:1, í frestuðum leik úr 10. umferð deildarinnar.

Kári haltraði af velli strax í fyrri hálfleik á 38. mínútu en Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, staðfesti í samtali við fótbolta.net að miðvörðurinn öflugi hefði tognað í nára.

Í viðtali við Stöð 2 Sport eftir leikinn kom svo fram Kári gæti verið frá næstu tvær til þrjár vikurnar sem er mikið áfall fyrir íslenska karlalandsliðið ef satt reynist.

Ísland mætir Rúmeníu í umspili um laust sæti í lokakeppni EM 2020 fimmtudaginn 8. október næstkomandi á Laugardalsvelli en fari svo að Kári verði frá næstu þrjár vikurnar er ljóst að hann mun missa af leiknum mikilvæga.

mbl.is