Þurfum að manna skóflurnar og byrja að grafa

Jóhannes Karl Sigursteinsson, þjálfari KR.
Jóhannes Karl Sigursteinsson, þjálfari KR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við fórum yfir málin í hálfleik og leikmenn voru alveg jafn ósáttir og ég,“ sagði Jóhannes Karl Sigursteinsson, þjálfari KR, í samtali við mbl.is eftir 2:0-tap liðsins gegn Stjörnunni í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Meistaravöllum í Vesturbæ í dag.

„Þessi frammistaða okkar í fyrri hálfleik var einfaldlega ekki boðleg og við urðum að stíga upp í síðari hálfleik. Við töpuðum nánast öllum návígum okkar í fyrri hálfleik, vorum undir í baráttunni, og gerðum góðu liði Stjörnunni auðvelt um vik að labba yfir okkur.

Það var smá andleysi í okkur og mögulega er það farið að fara í hausinn á okkur að vera á botni deildarinnar. Það  er samt sem áður fullt af leikjum eftir og nóg af stigum í pottinum þannig að við verðum að halda áfram.

Eins þá voru óvæntar mannabreytingar hjá okkur eftir að Katrín Ásbjörnsdóttir var send í sóttkví í morgun og við þurfum að breyta liðinu út frá því. Kannski eru leikmenn að höndla þessar tilfærslur og breytingar sem við gerum illa.“

Katrín Ásbjörnsdóttir er komin í sóttkví og lék ekki með …
Katrín Ásbjörnsdóttir er komin í sóttkví og lék ekki með KR í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

KR-ingar gerðu tilfærslur á liði sínu í hálfleik og það virtist bera árangur þar sem liðið fékk ekki á sig mark.

„Að sjálfsögðu hefði verið þægilegt að horfa á leikinn fyrst og velja liðið svo en ég treysti samt sem áður mínum leikmönnum 100% og þeir munu bara koma sterkari til baka.

Mér fannst Stjarnan koma rólegri inn í seinni hálfleikinn verandi 2:0-yfir og þær þrýsta kannski alveg jafn mikið á okkur. Á sama tíma ýtum við upp en heilt yfir virkuðu breytingarnar sem við gerðum vel.“

KR er í neðsta sæti deildarinnar og þarf að fara fá stig gegn liðunum sem eru líka í neðri hluta deildarinnar til þess að koma sér af botnsvæðinu.

„Þetta var dauðafæri til þess að létta á pressunni á liðinu og við þurfum að fara taka stig til þess að gera það einmitt.

Tap í dag grefur okkur ennþá dýpra í holuna en nú þurfm við að manna skóflurnar og byrja grafa okkur upp,“ bætti Jóhannes Karl við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert