Þór/KA upp úr fallsæti á kostnað FH

FH og Þór/KA eigast við í dag.
FH og Þór/KA eigast við í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þór/KA komst í dag upp úr fallsæti í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta með 2:1-sigri á FH í fallbaráttuslag í Kaplakrika. Féll FH niður í fallsæti fyrir vikið. Er Þór/KA nú í áttunda sæti með 15 stig og FH í sætinu fyrir neðan með 13 stig. 

Gestirnir frá Akureyri byrjuðu mjög vel og náðu að skapa sér fín færi áður en Berglind Baldursdóttir kom liðinu yfir á 16. mínútu með sínu fyrsta marki í efstu deild. Berglind var þá réttur maður á réttum stað og skoraði með skoti af mjög stuttu færi eftir skallasendingu frá vinstri.

FH tók við sér eftir markið og aðeins fjórum mínútum síðar var Rannveig Bjarnadóttir toguð niður í teignum af Heiðu Ragney Viðarsdóttur og víti dæmt. Phoenetia Browne fór á punktinn og skoraði af öryggi og jafnaði.

Bæði lið fengu fín færi til að skora annað mark í skemmtilegum fyrri hálfleik en fleiri urðu þau ekki og staðan í leikhléi 1:1.

Liðin héldu áfram að reyna að sækja til sigurs í seinni hálfleik og skiptust þau á að skapa sér færi. Voru það gestirnir sem voru aftur fyrri til að skora í seinni hálfleik og það gerði Margrét Árnadóttir. María Catharina Ólafsdóttir brunaði upp hægri kantinn og sendi á Margréti sem kláraði með fallegu skoti í bláhornið. 

FH reyndi hvað það gat til að jafna metin en illa gekk að reyna á Hörpu Jóhannsdóttur í marki Þórs/KA og norðankonur fögnuðu því dýrmætum þremur stigum. 

FH 1:2 Þór/KA opna loka
90. mín. Uppbótartíminn er að minnsta kosti fjórar mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert