Íslandsmeistararnir völtuðu yfir Fylki

Elín Metta Jensen skorar sjötta mark Vals í Árbænum í …
Elín Metta Jensen skorar sjötta mark Vals í Árbænum í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Valur vann ótrúlegan 7:0 sigur á liði Fylkis í Árbænum í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. 

Fylkir var í þriðja sæti deildarinnar fyrir leikinn, og er þar enn eftir tap Selfoss gegn Þrótti fyrr í dag. Með sigrinum í dag eykur Valur forskot sitt á lið Breiðabliks sem er í öðru sæti deildarinnar. Valur er með 40 stig á meðan Breiðablik sem er með 36 stig á tvo leiki inni á lið Vals og mætir ÍBV á morgun.

Mist Edvardsdóttir skoraði 4 mörk fyrir Val áður en hún fór af velli um miðjan síðari hálfleik. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Elín Metta Jensen og Bergdís Fanney Einarsdóttir skoruðu allar eitt mark hver. 

Valskonur stjórnuðu leiknum frá upphafi til enda og Fylkir hafði einfaldlega engin svör. Leikurinn fór að stærstum hluta til fram á vallarhelmingi Fylkis og Valskonur þurftu ekki að hafa mikið fyrir þeim sjö mörkum sem skoruð voru.

Fylkiskonur komust einungis tvisvar sinnum á síðasta þriðjung vallarhelmings Valskvenna og náðu samt sem áður ekki að skapa sér nein tækifæri í þau tvö skipti. Það þótti raunar tíðindi ef Fylkiskonur náðu fleiri en tveimur sendingum innan liðsins án þess að missa boltann til Valskvenna, svo miklir voru yfirburðir þeirra síðarnefndu.

Yfirburðir Vals á Fylki í kvöld voru raunar, líkt og svo oft áður á tímabilinu, meiri en eiga að sjást í úrvalsdeild, hvað þá þegar andstæðingurinn er í þriðja sæti deildarinnar og var í toppbaráttu fyrir ekki svo löngu. Gæði Valsliðsins voru í dag svo mikil að það er lítið út á liðið hægt að setja, það skilaði að minnsta kosti sínu og gott betur en það. 

Fylki til varnar vantaði marga leikmenn í liðið vegna meiðsla og leikbanns og fjórir leikmenn liðsins spiluðu sína fyrstu leiki í úrvalsdeild í kvöld. Fyrri leikur liðanna tveggja endaði með 1-1 jafntefli svo úrslit kvöldsins voru fjarri því að vera fyrirsjáanleg, en verðskulduð voru þau fyrir gríðarlega öflugt lið Vals. Gæðamunur liðanna hefði þó að öllum líkindum verið töluvert minni ef að Fylkir hefði getað teflt fram sínu öflugasta byrjunarliði í kvöld, en þrátt fyrir það verður að krefjast meira af þeim sem komu inn í lið Árbæinga í kvöld ef að Fylkir ætlar ekki að missa endanlega af liðum Breiðabliks og Vals í toppbaráttunni. 

Fylkir 0:7 Valur opna loka
90. mín. Valur fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert