Þetta var högg í andlitið

Guðni Eiríksson þjálfari FH.
Guðni Eiríksson þjálfari FH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er gríðarlega svekktur, þetta var högg í andlitið,“ sagði Guðni Eiríksson þjálfari FH í samtali við mbl.is eftir 1:2-tap fyrir Þór/KA í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í dag. Guðni var allt annað en sáttur við spilamennsku síns liðs í leiknum. 

„Það var ansi margt sem vantaði upp á í dag. Við byrjum mjög illa sem er ólíkt okkur. Leikmenn voru greinilega stressaðir. Við komumst aftur inn í leikinn með að jafna og það var gott og 1:1 í hálfleik var vel sloppið. 

Við fórum yfir það í hálfleik hvernig við ætluðum að koma til baka og mér fannst við gera það í upphafi seinni hálfleiks. Því miður nýttum við ekki færin því fyrstu 10-15 mínúturnar í seinni hálfleik voru eign FH. Við fáum svo mark í andlitið.“

FH er nú í fallsæti þegar aðeins þrír leikir eru eftir og því mikið undir næstu vikur. „Það eru þrír leikir eftir sem eru allt úrslitaleikir. Það er bara næsti leikur, sem er ÍBV og það er eins gott að liðið rífi sig upp,“ sagði Guðni.

mbl.is