Við áttum þetta skilið

Mist Edvardsdóttir skorar eitt af fjórum mörkum sínum fyrir Val …
Mist Edvardsdóttir skorar eitt af fjórum mörkum sínum fyrir Val í dag. mbl.is/Íris

„Mér fannst við spila frábærlega og við áttum þessi þrjú stig skilið,“ segir Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, leikmaður kvennaliðs Vals í knattspyrnu. Val­ur vann ótrú­leg­an 7:0 sig­ur á liði Fylk­is í Árbæn­um í Pepsi Max deild kvenna í knatt­spyrnu í kvöld.

Mist Ed­vards­dótt­ir skoraði 4 mörk fyr­ir Val áður en hún fór af velli um miðjan síðari hálfleik. Gunn­hild­ur Yrsa Jóns­dótt­ir, Elín Metta Jen­sen og Berg­dís Fann­ey Ein­ars­dótt­ir skoruðu all­ar eitt mark hver. 

„Fyrst og fremst langar mig líka óska Mist til hamingju, hún er að koma til baka eftir krossbandaslit og skorar fjögur mörk og það er bara alveg geggjað. Hún á þvílíkt hrós skilið og bara liðið allt. Þetta voru mikilvæg stig, Fylkir er erfitt lið að mæta og við erum mjög ánægðar með þennan sigur,“ segir Gunnhildur. 

Valskon­ur stjórnuðu leikn­um frá upp­hafi til enda og Fylk­ir hafði ein­fald­lega eng­in svör. Leik­ur­inn fór að stærst­um hluta til fram á vall­ar­helm­ingi Fylk­is og Valskon­ur þurftu ekki að hafa mikið fyr­ir þeim sjö mörk­um sem skoruð voru.

„Við gerðum jafntefli við Fylki í fyrri leiknum og þær börðust allan tímann í kvöld en við unnum bara mikilvægan liðssigur. Þegar við vinnum svona saman er erfitt að brjóta okkur niður. Mér fannst Fylkisliðið ekkert slæmt, þær voru óheppnar í dag og við áttum frábæran leik og þær frammi voru að ná mjög vel saman og voru eiginlega óstöðvandi,“ segir Gunnhildur. 

„Liðsandinn er frábær og það er gaman að vera inni á vellinum, þannig liði viltu vera í. Það sem við getum gert er að mæta af fullum krafti og spila okkar leik og stundum fellur það með okkur og það gerði það í dag.“

Fylk­ir var í þriðja sæti deild­ar­inn­ar fyr­ir leik­inn, og er þar enn eft­ir tap Sel­foss gegn Þrótti fyrr í dag. Með sigr­in­um í dag eyk­ur Val­ur for­skot sitt á lið Breiðabliks sem er í öðru sæti deild­ar­inn­ar en á tvo leiki inni á lið Vals. Valur mætir Breiðablik í sannkölluðum toppslag næsta laugardag, 3. október. 

Eruð þið að horfa á leikinn við Breiðablik sem ákveðinn úrslitaleik í toppbaráttunni?

„Maður þarf að fara í alla leiki sem úrslitaleiki, hvort sem það er Fylkir í dag eða Breiðablik á laugardaginn. Öll stig skipta máli og við vitum alveg að leikurinn við Breiðablik er mikilvægur upp á titilbaráttuna, en við þurfum bara að einbeita okkur að því að spila okkar leik og ekki hugsa of mikið um það hvort þetta sé úrslitaleikur eða ekki. Við höfum bara gaman og gerum okkar besta, komum brjálaðar í þann leik eins og alla aðra,“ segir Gunnhildur.

mbl.is