Vísar sögusögnunum alfarið á bug

Arnar Grétarsson vísaði sögusögnunum á bug.
Arnar Grétarsson vísaði sögusögnunum á bug. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Arnar Grétarsson þjálfari karlaliðs KA í fótbolta ræddi framtíð sína hjá KA við Valtý Björn Valtýsson í Mín skoðun á Sport FM. Var greint frá því í Pepsi Max-stúkunni á Símanum sport að Arnar hafi látið forráðamenn KA vita að hann hafi ekki áhuga á að vera áfram hjá KA eftir tímabilið. Arnar vísar því á bug. 

„Staðan er sú að við höfum ekki sest niður. Við sáum í fjölmiðlum að ég væri búinn að láta KA vita að ég yrði ekki áfram en það er algjör della,“ sagði Arnar. Hann á von á að ræða framhaldið með KA á næstu vikum. 

„Markmiðið var að tryggja sætið í efstu deild og svo ræða framhaldið. Ég held báðir aðilar hafi áhuga á að halda samstarfinu áfram. Vonandi getum við nánast tryggt stöðuna á móti Gróttu í næstu umferð, en það verður ekki auðveldur leikur

Ef við vinnum hann sé ég okkur fara að ræða framhaldið og ræða hvernig við sjáum þetta. Við höfum spjallað og ég hef heyrt að þeir vilji halda mér, en við byrjum á að tryggja okkur sæti í deildinni,“ sagði Arnar Grétarsson. 

mbl.is