Blikar burstuðu vængbrotnar Eyjakonur

Úr leik liðanna í fyrra.
Úr leik liðanna í fyrra. mbl.is/Arnþór Birkisson

Breiðablik vann 8:0 stórsigur á vængbrotnu liði ÍBV í lokaleik 15. umferðar Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvellinum í dag. Staðan var strax orðin 6:0 í hálfleik. Blikar eru nú stigi á eftir toppliði Vals og eiga leik til góða en toppliðin mætast á Hlíðarenda næstu helgi.

Blikar unnu fyrri leik liðanna í Vestmannaeyjum 4:0 í sumar en Eyjakonur mættu vængbrotnar til leiks í dag. Karlina Miksone, Olga Sevcova og Miyah Watford hafa allar verið í lykilhlutverki í liðinu en voru í banni í dag. Þá var Eliza Spruntule frá vegna meiðsla. Íva Brá Guðmundsdóttir spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild, 14 ára, og Thelma Sól Óðinsdóttir og Selma Björt Sigursveinsdóttir voru í byrjunarliði ÍBV í fyrsta sinn. Blikar mættu hins vegar til leiks með sína bestu leikmenn, meðal annars þær Sveindísi Jane Jónsdóttur, Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur og Alexöndru Jóhannsdóttur sem allar byrjuðu landsleik Íslands gegn Svíþjóð á dögunum.

Heimakonur tóku forystuna strax á fyrstu mínútu leiksins en Sveindís skoraði það eftir fyrirgjöf Öglu Maríu Albertsdóttur. Agla María bætti svo sjálf við öðru marki á 18. mínútu eftir sendingu frá Alexöndru sem sjálf skoraði þriðja markið á 30. mínútu eftir vandræðagang í vörn ÍBV.

Rakel Hönnudóttir skoraði fjórða markið á 38. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Öglu Maríu og því næst skoruðu Blikar tvö mörk á tveimur mínútum, 42. og 43. Karólína Lea skoraði það fyrra eftir sendingu frá Andreu Rán Hauksdóttur og það síðara var sjálfsmark Helenu Jónsdóttur eftir að Sveindís var nálægt því að skora sjálf. Staðan 6:0 í hálfleik.

Blikar stigu aðeins af bensíngjöfinni í síðari hálfleik enda úrslitin löngu ráðin. Þeir áttu að lokum 24 marktilraunir gegn einni og fimmtán hornspyrnu en Eyjakonur núll. Sveindís skoraði sjöunda markið á 54. mínútu af stuttu færi og Agla María þrumaði knettinum í þaknetið af stuttu færi á 68. mínútu eftir sendingu frá Rakel.

Breiðablik 8:0 ÍBV opna loka
90. mín. Þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert