Dramatík í blálokin í Vesturbænum

Daði Ólafsson, Atli Sigurjónsson og Ólafur Ingi Skúlason í pollaslag …
Daði Ólafsson, Atli Sigurjónsson og Ólafur Ingi Skúlason í pollaslag á Meistaravöllum í dag. mbl.is/Íris

Fylkismenn unnu dramatískan 2:1 sigur á KR-ingum í Pepsi Max deild karla í dag. Sigurmarkið skoraði Sam Hewson úr vítaspyrnu sem dæmd var í uppbótartíma.

Jafnræði var með liðunum framan af leik, en úrhellisdemba setti svip sinn á allar aðgerðir liðanna. Fylkismenn voru hins vegar ívíð sprækari í sínum aðgerðum, þó að KR-ingar hefðu boltann meira.

Orri Hrafn Kjartansson, sem lék fremst á miðjunni hjá Fylki, kom sínum mönnum yfir á 32. mínútu með góðu skoti eftir stungusendingu, en þetta var fyrsta mark hans í efstu deild.

Heldur lifnaði yfir KR-ingum eftir markið, en þrátt fyrir að þeir kæmu sér í góðar stöður létu færin á sér standa, og héldu Fylkismenn því til búningsherbergja með forystuna í leikhléi.

Óskar Örn Hauksson, fyrirliði Íslandsmeistaranna, kom inná sem varamaður hjá KR í hálfleik og var búinn að jafna metin eftir tveggja mínútna, 1:1. Boltinn barst þá til hans rétt utan teigs eftir laglega sókn, og setti Óskar Örn boltann niðri með jörðinni framhjá Ragnari Braga Sveinssyni, fyrirliða Fylkis og Aroni Snæ í markinu.

Hagur KR-inga vænkaðist nokkuð þegar Ragnar Bragi ákvað að stöðva sókn Kristins Jónssonar með tveggja fóta sólatæklingu, og uppskar beint rautt spjald fyrir. Sóttu KR-ingar mjög það sem eftir lifði leiks og sköpuðu sér nokkur færi til þess að tryggja sér sigurinn. Þeir höfðu þó ekki erindi sem erfiði og var ljóst að Fylkismenn ætluðu sér ekki að leggja árar í bát þrátt fyrir liðsmuninn.

Þegar fjórar mínútur voru búnar af uppbótartímanum kastaði Beitir Ólafsson markvörður KR boltanum frá marki sínu og KR-ingar lögðu af stað í skyndisókn. Allt í einu var leikurinn hins vegar stöðvaður, en Ólafur Ingi Skúlason Fylkismaður lá þá í teignum. Af endursýningum að dæma virtist sem að hann hefði fengið olnboga Beitis í andlitið við útkast hans, en sitt sýndist hverjum um atvikið.

Ívar Orri Kristjánsson dæmdi vítaspyrnu og rak Beiti af velli. Guðjón Orri Sigurjónsson kom í mark KR og var nærri því að verja frá Sam Hewson en boltinn fór í netið og Fylkir hirti öll þrjú stigin.

Fylkismenn eru þar með komnir með 28 stig í þriðja sæti deildarinnar en KR situr eftir í fimmta sæti með 24 stig.

Líklega hefðu jafntefli verið sanngjörn úrslit í þessum leik, en ekki er spurt að sanngirni í knattspyrnu. KR-ingar geta nagað sig rækilega í handarbökin fyrir að hafa ekki getað nýtt sér liðsmuninn 11 gegn 10, annan leikinn í röð á heimavelli. Fylkismenn unnu hins vegar vel til baka í þeirri stöðu og náðu að halda KR-ingum í skefjum allt þar til sigurmarkið féll í þeirra skaut í blálokin.

KR 1:2 Fylkir opna loka
90. mín. +4! Í endursýningu virðist sem að Beitir setji olnbogann aftur fyrir sig í Ólaf Inga sem leggst kylliflatur niður. Ívar Orri dæmir víti og rautt spjald eftir að hafa ráðfært sig við línuvörð.
mbl.is