Ég er ekki sáttur en samt ásættanlegt

Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA.
Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA. Ljósmynd: Sigfús Gunnar

„Ég er auðvitað ekki sáttur með að ná ekki í þrjú stig í dag en eins og leikurinn þróast er niðurstaðan alveg ásættanleg,“  sagði Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari Skagamanna, sem þurftu að sætta sig við 2:2 jafntefli gegn Víkingum á Akranesi í dag þegar leikið var í efstu deild karla í fótbolta, Pepsi Max deildinni. 

„Ég er virkilega ánægður með frammistöðu að langstærstu leiti, við hefðum getað skorað þriðja markið í lokin og unnið svo þetta er svona beggja blands – ánægður með fullt af hlutum en til dæmis í aðdraganda markanna hjá Víkingum erum við tapa boltanum klaufalega og náum ekki að hreinsa boltann útaf hættusvæðinu og koma honum fram völlinn þar sem Tryggvi Hrafn sóknarmaður okkar er alltaf hættulegur.    Það sem er mest svekkjandi er að við lögðum mikið upp úr því að stöðva og loka svæðum og föstum leikatriðum hjá þeim fyrir Víkingum.“  

Það er hugur í þjálfaranum.  „Við ætlum núna að vera mun þéttari, við getum alveg skorað mörk og í næstum leikjum ætlum við fara yfir varnarleikinn.  Strákarnir sýndu í dag að þeir eru til í að verjast allir sem einn en það var pínu klaufaskapur hjá okkur í dag og boltinn datt oftar niður fyrir Víkinga en okkur og það er algjörlega unnið  í  því,“ sagði Jóhannes Karl og er, eins og aðrir, til í að bæta við hópinn.  „Við einbeitum okkur nú að byggja upp leikmannahópinn sem við höfum núna en það er ekkert leyndarmál að Tryggvi Hrafn er samninglaus í haust og ekki búinn að semja við okkur.  Við ætlum að klára tímabilið af krafti og auðvitað erum við alltaf að reyna gera fótboltaliðið okkar betra og ef við finnum leikmenn sem passa inní okkar stefnu munum reyna að fá þá.  Það breytist ekkert.“

mbl.is