Ekki í mínu eðli að stressa mig

Eiður Smári Guðjohnsen á hliðarlínunni.
Eiður Smári Guðjohnsen á hliðarlínunni. mbl.is/Árni Sæberg

Eiður Smári Guðjohnsen annar þjálfara FH var kátur eftir 1:0-sigur á Fjölni í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í dag. FH hefur oft spilað betur en sigurmarkið kom átta mínútum fyrir leikslok. 

„Það var aðeins þungt yfir þessu. Völlurinn var þungur í dag enda búið að rigna mikið. Það er greinilegt að það hefur mikil orka farið í síðustu vikur. Það hefur verið spilað þétt og það sást í dag. Við náðum ekki okkar besta leik en þetta eru mikilvæg þrjú stig,“ sagði Eiður við mbl.is.

Hann var ekki áhyggjufullur þrátt fyrir að staðan væri markalaust og skammt eftir. „Ég var ekki áhyggjufullur og það er ekki í mínu eðli að stressa mig. Auðvitað róaði það taugarnar þegar markið loks kom. Við þurftum svo að eyða allri orkunni sem var eftir til að verja okkar mark og sigla leiknum heim.“

Hinn 16 ára gamli Logi Hrafn Róbertsson lék allan leikinn í vörn FH í fjarveru Guðmanns Þórissonar og komst afar vel frá sínu. „Logi Hrafn er nýorðinn 16 ára og hann leit út eins og hann væri búinn að spila í efstu deild í 20 ár. Var yfirvegaður og flottur og það er gleðiefni.“

Eiður vildi ekki gefa út hvort hann yrði áfram með FH á næstu leiktíð, en FH hefur spilað vel eftir að hann og Logi Ólafsson tóku við af Ólafi Kristjánssyni. „Ég verð á hliðarlínunni næsta fimmtudag. Það hefur gengið vel og ég er ánægður með stígandann sem er í liðinu en meira get ég ekki sagt um það,“ sagði Eiður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert