Enn ein prófraunin fyrir meistaraefnin

Valur vann Breiðablik í fyrri leiknum í Kópavogi í sumar.
Valur vann Breiðablik í fyrri leiknum í Kópavogi í sumar. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Meistaraefnin í Val halda áfram að takast á við helstu keppinautana um efstu sætin í Pepsi Max-deild karla í fótbolta þegar átjánda umferð deildarinnar verður leikin í dag og kvöld.

Reyndar er erfitt að tala um keppinauta mikið lengur því forskot Vals er orðið ellefu stig eftir afgerandi útisigra á Stjörnunni og FH í tveimur síðustu leikjum. Í kvöld verða Heimir Guðjónsson og hans menn á heimavelli og  taka á móti Breiðabliki klukkan 19.15.

Blikarnir réttu sig einmitt við á fimmtudagskvöldið með því að sigra Stjörnuna 2:1 og eru í þriðja sæti deildarinnar, fjórtán stigum á eftir Val. Blikar gætu vissulega enn orðið meistarar með því að vinna alla sjö leiki sína og enda með 47 stig en þá mættu Valsmenn í mesta lagi fá sjö stig úr síðustu sex leikjum sínum í deildinni.

Fyrir Kópavogsliðið er því fyrst og fremst Evrópusæti í húfi, ásamt því að tapa ekki tvisvar gegn Valsmönnum sem unnu fyrri leik liðanna á Kópavogsvelli í sumar, 2:1.

FH er með 29 stig í öðru sæti og fær Fjölnismenn í heimsókn klukkan 14. Fjölnir hefur enn ekki unnið leik, aðeins náð sex stigum, og þyrfti hálfgert kraftaverk til að sækja eitthvað í Kaplakrikann gegn særðum Hafnfirðingum. Guðmann Þórisson miðvörður FH tekur út fyrri leikinn í tveggja leikja banni eftir brottreksturinn gegn Val.

Næstsíðasti heimaleikur KR

KR-ingar fá Fylki í heimsókn klukkan 14 og spila tíunda heimaleikinn af ellefu á tímabilinu. Að honum loknum eiga fráfarandi meistararnir eftir sex útileiki og einn heimaleik. Fylkir fór uppfyrir KR á fimmtudaginn og í fjórða sætið, er með 25 stig gegn 24 hjá KR-ingum sem hinsvegar eiga tvo leiki til góða á Árbæingana.

Skagamenn fengu skell í Fossvoginum í sumar en síðan hafa …
Skagamenn fengu skell í Fossvoginum í sumar en síðan hafa Víkingar ekki unnið leik. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

ÍA og Víkingur mætast á Akranesi klukkan 14 og þar freista Skagamenn þess að vinna þriðja leikinn í röð eftir að hafa unnið botnliðin tvö nokkuð örugglega í síðustu leikjum.

Víkingar hafa enn ekki unnið leik síðan þeir sigruðu Skagamenn glæsilega 6:2 í fyrri leik liðanna og hafa í millitíðinni aðeins fengið fjögur stig í átta leikjum. ÍA mætir til leiks með 20 stig í sjöunda sæti en Víkingar eru með 15 stig í tíunda sæti og gætu sogast ofan í fallbaráttu ef Grótta og Fjölnir tækju allt í einu upp á því að vinna leiki.

Jafntefliskóngarnir mæta á Seltjarnarnesið

Gróttumenn fá jafntefliskóngana í KA í heimsókn á Seltjarnarnesið í síðdegisleik dagsins, klukkan 16.15. Nú eru allra allra síðustu forvöð fyrir Gróttumenn að landa sigri ef þeir ætla að vera með á lokasprettinum. Þeir eru með 8 stig, sjö stigum frá því að komast úr fallsæti og átta stigum á eftir KA sem er með þá ótrúlegu útkomu að hafa gert 10 jafntefli, unnið tvo leiki og tapað þremur.

Annar tveggja sigra KA var einmitt gegn Gróttu, 1:0, á Akureyri í sumar. KA hefur ekki tapað í sex leikjum í röð, en bara unnið einn þeirra!

Grótta verður án fyrirliðans Sigurvins Reynissonar og aðstoðarþjálfarans Guðmundar Steinarssonar sem báðir fengu rauða spjaldið í jafnteflisleiknum gegn KR á fimmtudaginn.

KA og HK skildu jöfn á fimmtudaginn á Akureyri. KA …
KA og HK skildu jöfn á fimmtudaginn á Akureyri. KA mætir Gróttu og HK mætir Stjörnunni í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Loks mætast nágrannaliðin HK og Stjarnan í Kórnum í Kópavogi klukkan 19.15 í kvöld. Stjörnumenn hafa misst flugið, tapað tveimur leikjum í röð og dottið niður í sjötta sætið með 24 stig. Þeir eiga þó enn tvo leiki til góða á flest liðanna.

Meðal annars HK sem er með 19 stig í áttunda sæti og gæti með sigri í kvöld komið sér nær liðunum í efri helmingi deildarinnar. HK hefur undanfarið átt sinn stöðugasta kafla á tímabilinu og aðeins tapað einum af síðustu fimm leikjum sínum.

mbl.is