Flott frammistaða á öllum vígstöðvum

Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkinga.
Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkinga. Ljósmynd: Eyþór Árnason

„Ég var hrikalega ánægur með mína stráka í dag, flott frammistaða á öllum vígstöðvum,“  sagði Arnar Bergmann Gunnlaugsson  þjálfari Víkinga eftir 2:2 jafntefli gegn ÍA á Akranesi í dag þegar leikið var í efstu deild karla í fótbolta í dag, Pepsi Max deildinni.

„Við vorum bara hrikalega góðir með ungt lið, margir ekki að spila í sínum stöðum, höfðum algera yfirburði og Skaginn áttu í miklum vandræðum með að komast yfir miðju en þeir hafa leikmann eins og Tryggva Hrafn Haraldsson þarna frammi sem þeir treysta á.  Mörg lið eru farin að spila gegn okkur þannig að treysta á að við gerum mistök í okkur uppbyggingu.   Mig langar að skoða fyrsta mark þeirra aftur, það var eitthvað skrýtið þegar Tryggvi Hrafn er allt í einu bara einn þarna frammi og þeir skora en við náðum að klóra okkur út úr því og skorum fljótlega, svo fengum við víti.“

Arnar þjálfari hefur ekki alltaf ánægður með liðið, t.d. eftir tap fyrir Fylki í síðasta leik.  „Við tókum góða fundi í vikunni og benti strákunum að það er ekkert að leikfræði liðsins og hvernig við erum að spila.   Menn voru farnir að vorkenna sjálfum sér og gegn Fylki í síðasta leik var eitthvað slen yfir mönnum, sumir komnir í frí í hausnum og vonast til að mótið sé að verða búið en það er hellingur eftir og mikilvægt að enda mótið vel til að koma í næstu mót á sterkan og jákvæðan hátt.  Líka fyrir leikmenn sem við mögulega viljum fá  til liðs við okkur og allt það, það má ekki eyðileggja alla þá vinnu sem hefur farið fram útaf einhverjum skítaleikjum í lok sumar en mínir menn sýndu í dag að þeir voru vel stemmdir og klárir í þennan leik.“

Bikarmeistarar Víkings voru vígreifir fyrir mótið og ætluðu sér mikið með spræka unga stráka í bland við þungavigtarmenn í vörninni.   „Við erum auðvitað í vonbrigðum með þetta sumar, við ætluðum að vera miklu ofar í deildinni en þegar farið er að skoða hvað fór úrskeiðis þá verður maður að vera heiðarlegur við sjálfan sig og margt hefur ekkert með fótboltahliðina að gera.  Margir leikmenn meiddir og allt það, ég ætla vona að ég hljómi ekki eins og einhver vælukjói en við höfum reynt að mæta í alla leiki til að spila að okkar hætti.  Tölurnar sýna að við höfum ekki skorað mörg mörk við höfum reynt og það mun á endanum skila sér.  Það hefði verið mjög auðvelt þegar vantar menn eins og Sölva Geir Ottesen og Kára Árnason í vörnina og alla framlínuna að falla til baka og reyna treysta á einhverjar skyndisóknir en þá læra strákarnir ekki neitt.   Þetta verður þá bara betra og þú færð leikmenn til liðsins, sem bæta það enn frekar og þannig hefst vegferðin.“  bætti þjálfarinn við en lítur líka í eigin barm. 

„Við erum strax byrjaðir hugsa um hvernig við getum bætt við liðið en þetta er líka lærdómur fyrir mig.  Ég geri mín mistök og ekki sá reynslumesti þjálfarinn í bransanum, mitt annað ár,  þó ég kunni ýmislegt fyrir mér í fótbolta þá er þetta ákveðin reynsla hvernig þú hagar þér fyrir og eftir leiki, stundum er maður tapsár og segir eitthvað sem maður sér eftir en heilt yfir er  ég fullur eldmóðs um að gera enn betur á næsta ári.  Við erum þegar farnir að skoða ákveðna leikmenn  og ég veit hvað vantar í þetta lið svo við erum hvergi bangnir fyrir næsta tímabil.  Við erum bara flott lið í ákveðinni vegferð en þetta hefur bara ekki verið alveg okkar sumar núna og við höldum ótrauðir áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert