Guð minn góður hvað þetta er þreytt

Ásmundur Arnarsson þjálfari Fjölnis.
Ásmundur Arnarsson þjálfari Fjölnis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Arnarsson þjálfari Fjölnis var að vonum svekktur efitr 0:1-tap gegn FH í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í dag. Fjölnismenn spiluðu frekar vel og voru óheppnir að fara tómhentir heim úr Kaplakrika, en Fjölnir er eina lið deildarinnar sem enn hefur ekki unnið leik.

„Ég er orðinn leiður á að vera með sömu tugguna. Menn eru auðvitað hrikalega svekktir að fá aldrei neitt út úr hlutunum þegar þú ert búinn að undirbúa þig vel og berst vel, skapar þér færi, nýtir ekki færin og færð svo mark eftir horn og tapar. Að það gerist aftur og aftur er auðvitað mjög svekkjandi,“ sagði Ásmundur við mbl.is.

Hann var ánægður með spilamennskuna, en að sjálfsögðu minna kátur með tapið. „Leikplanið gekk mjög vel upp. Við sköpuðum færi til að skora og fengum lítið á okkur. Þetta gekk mjög vel upp fyrir utan að við vildum fá þrjú stig en ekki núll.“

Ásmundur viðurkennir að það sé erfitt að rífa menn upp eftir 17 leiki í röð án sigurs. „Auðvitað er það mikið verkefni en menn sýndu það í dag að andinn er góður í liðinu og menn eru að leggja allt í þetta enn þá. Við ætlum svo sannarlega að gera það út mótið. Við ætlum að klára þetta mót með sæmd. Við erum langt frá því að vera sáttir við þessa stöðu og teljum frammistöðuna verðskulda annað. Þarna erum við hinsvegar og taflan lýgur ekki.“

Þjálfarinn er sjálfur orðinn dauðþreyttur á að spila leik eftir leik án þess að fagna sigri. „Það er engan bilbug þannig á mér að finna en guð minn góður hvað það er erfitt að tapa leik eftir leik. Að ná ekki sigri í langan tíma leggst að sjálfsögðu þungt á mann,“ sagði Ásmundur og viðurkenndi að líkurnar á að Fjölnir bjargaði sér frá falli væru litlar. „Það eru litlar líkur á því. Við reynum að nálgast hvern leik eins og eitt verkefni. Það þýðir ekkert að reikna sig áfram í töflunni. Hver leikur er nýtt mót hjá okkur,“ sagði Ásmundur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert