Galdrakarlinn Hilmar hetja Stjörnumanna

Guðjón Baldvinsson, Leifur Andri Leifsson og Ásgeir Börkur Ásgeirsson í …
Guðjón Baldvinsson, Leifur Andri Leifsson og Ásgeir Börkur Ásgeirsson í fyrri leik liðanna í sumar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Stjarnan fór upp fyrir Íslandsmeistara KR og upp í fimmta sæti Pepsi Max-deildar karla í fótbolta með 3:2-sigri á HK í Kórnum í kvöld. 

Stjörnumenn voru sterkari í fyrri hálfleik og voru nokkrum sinnum nálægt því að komast yfir snemma leiks. Átti Guðjón Pétur Lýðsson m.a. hörkuskot í slá og þá skoraði Þorsteinn Már Ragnarsson mark sem var dæmt af. 

Fyrsta markið kom á 39. mínútu og þar var að verki vinstri bakvörðurinn Jósef Kristinn Jósefsson. Hilmar Árni Halldórsson fór upp vinstri kantinn og sendi beint á kollinn á Jósef sem skoraði með skalla af stuttu færi. 

Stjörnumenn voru varla búnir að fagna markinu þegar Hilmar Árni lagði upp sitt annað mark. Lagði hann boltann á Guðjón Pétur Lýðsson sem negldi honum í bláhornið fjær af rúmlega 20 metra færi. Arnar Freyr Ólafsson hreyfði sig ekki í marki HK og var staðan í leikhlé 2:0, Stjörnunni í vil. 

HK-ingar voru ekki lengi að koma sér aftur inn í leikinn því á sjöttu mínútu seinni hálfleiks minnkaði Hörður Árnason muninn með skalla eftir hornspyrnu Ásgeirs Marteinssonar. HK-ingar héldu áfram að sækja og var Guðmundur Þór Júlíusson nálægt því að jafna eftir rúmlega klukkutíma leik en Haraldur Björnsson í marki Stjörnunnar varði vel frá honum eftir hornspyrnu. 

Guðmundur gerði gott betur á 73. mínútu er hann skallaði boltann í netið eftir aðra hornspyrnu Ásgeirs og jafnaði í 2:2. Var markið algjörlega verðskuldað enda HK-ingar miklu betri í seinni hálfleik. 

Stjörnumenn gáfust ekki upp þrátt fyrir jöfnunarmarkið og gestirnir komust aftur yfir á 86. mínútu. Daníel Laxdal lagði þá boltann á Hilmar Árna sem skoraði með föstu skoti rétt utan teigs í bláhornið fjær. Kórónaði Hilmar þannig góðan leik sinn, en hann lagði upp fyrstu tvö mörk Stjörnunnar. 

Kærkominn sigur

Sigurinn var kærkominn hjá Stjörnumönnum eftir erfiðar síðustu vikur. Rúnar Páll Sigmundsson og Ólafur Jóhannesson þjálfarar Stjörnunnar breyttu til og Björn Berg Bryde kom í vörnina, Daníel Laxdal á miðjuna og Þorsteinn Már Ragnarsson í framlínuna. Virkaði það gífurlega vel í fyrri hálfleik. Stjörnumenn spiluðu virkilega vel og fóru verðskuldað með tveggja marka forskot í hálfleikinn. 

Guðjón Pétur Lýðsson fékk að spila framar á miðjunni með Daníel rétt fyrir aftan að sópa upp og vernda vörnina. Það hlutverk hentaði Guðjóni afar vel og lék hann sinn besta hálfleik fyrir Stjörnuna síðan hann kom frá Breiðabliki snemma á tímabilinu. Guðjón var tekinn af velli í hálfleik, væntanlega vegna meiðsla, og við það riðaðist leikur liðsins töluvert og HK jafnaði verðskuldað. 

Sem betur fer fyrir Stjörnuna er liðið með galdrakarl í Hilmari Árna Halldórssyni sem lagði upp tvö mörk og skoraði svo sigurmarkið sjálfur. Hálfleikarnir voru eins og svart og hvítt en breytingar á liðsuppstillingunni virkuðu vel fyrir Stjörnuna, sem var ferskari en oft áður. 

HK-ingar óheppnir

HK lék alls ekki vel í fyrri hálfleik og réðu lítið við ferska Stjörnumenn. Eitthvað sagði Brynjar Björn Gunnarsson við sína menn í hálfleik því þeir litu töluvert mikið betur út í seinni hálfleiknum og sóttu án afláts þangað til þeir jöfnuðu í 2:2. Voru þeir líklegir til að skora sigurmarkið þegar Hilmar Árni kastar blautri tusku í andlitið á þeim. 

Svekkelsi HK-inga í leikslok var gríðarlegt, enda búnir að leggja mikið á sig til að jafna leikinn. Þeir geta hins vegar sjálfum sér um kennt því ef þú leyfir Hilmari Árna Halldórssyni að fá frítt skot rétt utan teigs, þá refsar hann oftar en ekki. 

Það var margt jákvætt í leik HK-inga en það jákvæðasta fyrir Kópavogsliðið var að Hafsteinn Briem var mættur aftur á bekkinn eftir þrálát meiðsli. Hafsteinn kom ekkert við sögu en vonandi sjáum við hann aftur á vellinum innan skamms. 

HK 2:3 Stjarnan opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert