Hundleiðinlegt að horfa alltaf á liðið í neðstu sætunum

Úr leiknum á Vivaldi-vellinum í dag.
Úr leiknum á Vivaldi-vellinum í dag. mbl.is/Íris

Blaðamaður mbl.is náði tali af Ágústi Gylfasyni, þjálfara Gróttu, eftir 4:2-tap á heimavelli gegn KA í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu. Seltirningar eru með átta stig í 11. sætinu eftir 17 leiki, átta stigum frá öruggu sæti þegar fimm leikir eru eftir.

Eruð þið úr leik í fallbaráttunni?

„Ég hélt að þetta væri yfirleitt síðasta spurning, það er högg að fá þessa til að byrja með,“ svaraði Ágúst og hló við. „Það er vont að fá á sig fjögur mörk á heimavelli, það er nokkuð ljóst.

Staðan í deildinni er náttúrulega ekkert sérstök. Það eru nokkrir leikir eftir, Valur er næsti andstæðingur og það verður ærið verkefni.“

Grótta nældi í stig á útivelli á gegn Íslandsmeisturum KR í síðasta leik, 1:1, og spilaði liðið þar góðan varnarleik, lengi vel manni færri. Það gekk ekki eftir að endurtaka leikinn í dag. „Það var sama upplegg og á móti KR, vinna boltann þar sem við vorum í yfirtölu. En við unnum ekki boltann þar og þetta varð allt annar leikur.“

Verður þú áfram með liðið eftir tímabilið?

„Þessi spurning hefur oft komið til mín. Árangurinn núna er ekkert sérstakur og hún á því algjörlega rétt á sér. Það er hundleiðinlegt að horfa alltaf á Gróttuliðið í 11. eða 12. sæti. En við gefumst aldrei upp og klárum þetta mót með sóma. Þetta eru erfiðir leikir framundan, við vitum það og gegn sterkari liðum en það er ekki eins og við höfum verið að vinna veikari liðin heldur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert