„Það gleyma honum allir“

Birkir Már Sævarsson jafnar fyrir Val í kvöld.
Birkir Már Sævarsson jafnar fyrir Val í kvöld. mbl.is/Íris

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, sagði sína menn ef til vill hafa farið á of mikið flug eftir mikilvægan 4:1 sigur gegn FH á fimmtudaginn. Hann var ánægður með stigið gegn Breiðabliki í Pepsí Max deildinni í knattspyrnu í kvöld. 

„Ég er ánægður með stigið vegna þess að mér fannst við ekki eiga meira skilið úr þessum leik. Mér fannst Blikarnir vera sterkari en við og við settum ekki nógu góða pressu á Blikana. Þá verða þeir stórhættulegir þannig að við erum ánægðir með þetta stig. Birkir kom og bjargaði okkur í restina,“ sagði Heimir og var spurður í framhaldinu út í markheppni Birkis undanfarið.

„Þetta er alveg með ólíkindum. Hann kemur úr bakvarðastöðunni og það gleyma honum allir.“

Sigur Vals á FH á fimmtudaginn gerði það að verkum að Valsmenn eru með yfirburðastöðu á toppi deildarinnar. Leikurinn var engu að síður mikilvægur því FH hefði með sigri hleypt aukinni spennu í kapphlaupið um titilinn. 

„Já það var lykilleikur fyrir okkur en það eru fimm leikir eftir sem geta gefið fimmtán stigum. Þar af leiðandi megum við ekki fara fram úr okkur. Við þurfum að halda einbeitingu. Nú er þessi leikjatörn búin og það er vika í næsta leik. Við verðum að æfa vel og vera tilbúnir á sunnudaginn,“ sagði Heimir og vildi ekki gera of mikið úr leikjaálaginu undanfarið þegar hann var spurður um hvort hann hefði séð einhver þreytumerki á sínum mönnum. 

„Nei í sjálfu sér ekki. Mögulega hafa menn farið full hátt eftir sigurinn á móti FH.“

Hannes Þór Halldórsson grípur fyrirgjöf í kvöld.
Hannes Þór Halldórsson grípur fyrirgjöf í kvöld. mbl.is/Íris
mbl.is