Gott að fá smá spark í rassgatið öðru hverju

Hallgrímur Mar B. Steingrímsson skorar eitt marka sinna gegn Gróttu …
Hallgrímur Mar B. Steingrímsson skorar eitt marka sinna gegn Gróttu á sunnudaginn. mbl.is/Íris

Akureyringurinn Hallgrímur Mar B. Steingrímsson átti sinn besta leik í sumar þegar lið hans KA heimsótti Gróttu í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Vivaldi-völlinn á Seltjarnarnesi í 18. umferð deildarinnar á sunnudaginn síðasta.

Hallgrímur, sem verður þrítugur á föstudaginn kemur, skoraði þrennu í 4:2-sigri KA en liðið fór með sigrinum upp í áttunda sæti deildarinnar í 19 stig og er nú 11 stigum frá fallsæti þegar sex umferðir eru eftir af tímabilinu.

Hallgrímur er uppalinn hjá Völsungi en hann hefur skorað 4 mörk í sextán deildarleikjum í sumar.

„Þetta var gríðarlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið og það var þess vegna afar kærkomið að ná í sigur,“ sagði Hallgrímur Mar í samtali við Morgunblaðið. „Við erum búnir að gera ansi mörg jafntefli í deildinni í sumar og eins höfum við ekki verið að skora mörg mörk heldur.

Að sama skapi höfum við ekki verið að fá neitt allt of mörg mörk á okkur sem er auðvitað jákvætt en sóknarþunginn hefur verið að aukast í undanförnum leikjum og það má alveg segja sem svo að flóðgáttirnar hafi aðeins opnast gegn Gróttu,“ sagði Hallgrímur sem á að baki 96 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað 30 mörk en samtals 250 leiki og 68 mörk í öllum deildum.

Ætluðu sér stærri hluti

KA-menn höfnuðu í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.

„Við settum ákveðna pressu á okkur fyrir tímabilið og það er ekkert leyndarmál að við ætluðum okkur klárlega stærri hluti í sumar.

Vissulega höfum við misst mikilvæga leikmenn eins og nafna minn Hadda [Hallgrím Jónasson] og Nökkva [Þey Þórisson] og það setur sitt strik í reikninginn en á sama tíma er það engin afsökun og ég hefði viljað vera ofar í töflunni.“

Viðtalið í heild sinni má sjá í íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag ásamt úrvalsliði 18. umferðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert