Keflvíkingar of sterkir fyrir ÍBV - Framsigur á Ísafirði

Keflavík er í afar góðum málum eftir sigur á ÍBV.
Keflavík er í afar góðum málum eftir sigur á ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Gott gengi Keflavíkur í Lengjudeild karla í fótbolta hélt áfram í dag er liðið fékk ÍBV í heimsókn. Urðu lokatölur 3:1, Keflavík í vil og er liðið því áfram í toppsætinu. 

Davíð Snær Jóhannsson kom Keflavík yfir strax á 7. mínútu og fékk Joe Gibbs, markahæsti leikmaður deildarinnar, tækifæri til að tvöfalda forskotið á vítapunktinum á 40. mínútu. Það tókst ekki og aðeins mínútu síðar jafnaði Gary Martin og var staðan í hálfleik 1:1. 

Keflavík komst aftur yfir á 50. mínútu þegar varamaðurinn Ari Steinn Guðmundsson skoraði. Gott varð betra fyrir Keflavík á 64. mínútu þegar fyrirliðin Frans Elvarsson bætti við þriðja  markinu og þar við sat. Fékk Ari Steinn sitt annað gula spjald og þar með rautt á 78. mínútu en það kom ekki að sök fyrir Keflvíkinga. 

Framarar eru áfram í fínum málum í toppbaráttunni eftir 2:1-útisigur á Vestra. Þórir Guðjónsson reyndist hetja Framara en hann skoraði bæði mörkin. Kom hann fram í 2:0 á 72. mínútu áður en Nacho Gil minnkaði muninn á 76. mínútu og þar við sat. 

Í Grindavík sáu heimamenn um Víking Ólafsvík á fyrsta korterinu. Voru Oddur Ingi Bjarnason, Sigurður Bjartur Hallsson og Guðmundur Magnússon allir búnir að skora eftir kortersleik og staðan orðin 3:0 sem reyndust lokatölur. Oddur Ingi fékk sitt annað gula spjald á 64. mínútu en öruggur sigur Grindvíkinga varð raunin. 

Staðan: 

  1. Keflavík 40
  2. Fram 39
  3. Leiknir R. 36
  4. Grindavík 32
  5. ÍBV 30
  6. Þór 28
  7. Vestri 26
  8. Afturelding 22
  9. Víkingur Ó. 19
  10. Þróttur 12
  11. Leiknir F. 12
  12. Magni 9
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert