Glatt á hjalla í Sandgerði í dag

Benedikt Jónsson skorar fyrsta mark Reynis gegn Álftanesi í dag …
Benedikt Jónsson skorar fyrsta mark Reynis gegn Álftanesi í dag með skalla. Ljósmynd/Jón Örvar

Vel var fagnað í Sandgerði í dag þegar lið Reynis tryggði sér sæti í 2. deild karla í knattspyrnu með því að sigra Álftanes, 3:1, á heimavelli.

Þar með eru Reynismenn komnir í 2. deildina á ný eftir sex ára dvöl í tveimur neðstu deildum Íslandsmótsins. Þeir eiga enn þrjá leiki eftir en eru komnir fjórtán stigum á undan KFG sem er í þriðja sæti deildarinnar.

Keflvíkingurinn Haraldur Freyr Guðmundsson þjálfar lið Reynis og með liðinu leika gamalkunnir fyrrverandi leikmenn Keflavíkur, þeir Magnús Sverrir Þorsteinsson og Hörður Sveinsson.

Mörk liðsins í dag skoruðu Benedikt Jónsson, Guðmundur Gísli Gunnarsson og Elton Barros.

KV úr Reykjavík er einnig komið upp eftir úrslit dagsins í 3. deildinni en leikur KV og Tindastóls stendur yfir. KFG, eina liðið sem gat mögulega farið uppfyrir annaðhvort Reyni eða KV, tapaði 2:1 fyrir Hetti/Hugin í Fellabæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert