Munnlegt samkomulag í höfn

Tryggvi Hrafn Haraldsson hefur spilað mjög vel með ÍA í …
Tryggvi Hrafn Haraldsson hefur spilað mjög vel með ÍA í sumar. Ljósmynd/Skagafréttir

Tryggvi Hrafn Haraldsson hefur gert munnlegt samkomulag við knattspyrnudeild Vals um að ganga í raðir félagsins eftir tímbilið samkvæmt heimildum mbl.is.

Skagamaðurinn hefur spilað mjög vel með ÍA í úrvalsdeildinni, Pepsi Max-deildinni, í sumar og skorað tólf mörk í sautján leikjum í deildinni.

Þá á hann að baki 72 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað 25 mörk en hann er 24 ára gamall.

Tryggvi lék með Halmstad í Svíþjóð frá 2017 til ársins 2018 en snéri aftur til uppeldisfélags sín árið 2019 og hefur leikið með Skagamönnum undanfarin tvö tímabil.

Hann verður samningslaus í lok tímabils og hefur sjálfur sett stefnuna á atvinnumennsku erlendis eftir því sem mbl.is kemst næst.

Fari svo að hann verði áfram á Íslandi mun hann leika með Valsmönnum sem eru með 42 stig í efsta sæti deildarinnar þegar fimm umferðir eru eftir af tímabilinu, 9 stigum meira en FH, en FH á leik til góða á Valsmenn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert