Selfoss í 3. sæti eftir sigur á KR

Hólmfríður Magnúsdóttir og Laufey Björnsdóttir eigast við í leik liðanna …
Hólmfríður Magnúsdóttir og Laufey Björnsdóttir eigast við í leik liðanna í september. mbl.is/Íris

Það tók Selfyssinga 85 mínútur að kveða botnlið KR í kútinn þegar liðin mættust á Selfossvelli í dag í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsí Max deildinni. Lokatölur urðu 2:1.

Leikurinn fór rólega af stað en botnlið KR sýndi góð tilþrif framan af og Guðmunda Brynja Óladóttir, kom þeim yfir með glæsilegu skallamarki á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Selfyssingar voru sterkari í seinni hálfleik og náðu að skora tvívegis en töluvert fjaraði undan sóknarleik KR þegar leið á leikinn.

Tiffany McCarty jafnaði fyrir Selfoss á 60. mínútu og fimm mínútum fyrir leikslok skoraði Dagný Brynjarsdóttir sigurmarkið, sem hafði legið í loftinu í talsverðan tíma.

Um er að ræða frestaðan leik úr 5. umferð deildarinnar en Selfoss er með 22 stig í 3. sæti deildarinnar á meðan KR er í tíunda og neðsta sætinu með 10 stig

Fyrri hálfleikurinn fer seint í sögubækurnar fyrir skemmtilegheit eða fagurfræði. Hann var ákaflega tíðindalítill lengst af, leikmenn fengu mikið pláss úti á vellinum til þess að aðhafa sig með boltann en ekkert kom út úr því, hvorki hjá Selfoss eða KR.

Guðmunda Brynja Óladóttir fékk besta færi KR eftir fimmtán mínútur þegar hún skaut rétt yfir úr vítateignum en annars gekk KR illa að enda sóknir sínar þrátt fyrir góð tilþrif frá Katrínu Ómarsdóttur á miðjunni og Ölmu Mathiesen sem var spræk á hægri vængnum.

Selfoss átti að gera betur í fyrri hálfleik, þær mættu værukærar til leiks og gáfu KR mikið pláss. Færin voru ekki mörg hjá þeim vínrauðu í fyrri hálfleik en þeim tókst þó þrívegis að setja boltann í tréverkið. Clara Sigurðardóttir hefði ekki þurft að stilla færið mikið betur þegar hún negldi boltanum í þverslána á 45 mínútu en strax í næstu sókn refsaði KR með glæsilegu skallamarki frá Guðmundu. Hún stangaði þá hornspyrnu Kristínar Ernu Sigurlásdóttur í netið og reyndist það síðasta snerting fyrri hálfleiks.

Selfoss átti seinni hálfleikinn skuldaust. Þeim gekk hins vegar illa að brjóta KR á bak aftur en þær röndóttu vörðust vel með Láru Kristínu Pedersen vinnusama fyrir framan vörnina.

Eitthvað varð þó undan að láta og á 60. mínútu átti Clara Sigurðardóttir frábæra sendingu inn á Tiffany McCarty sem skoraði af öryggi. Selfoss hélt áfram að sækja og sigurmarkið lá í loftinu. Fimm mínútum fyrir leikslok sendi McCarty boltann í gegnum KR vörnina á Dagnýju Brynjarsdóttur sem kláraði færið fagmannlega.

KR reyndi að færa sig framar á völlinn síðustu fimm mínúturnar, enda var jöfnunarmark þeim lífsnauðsynlegt. Það var þó lítill kraftur í þeim og reyndar virtist síðasti hálftíminn liðinu erfiður, þar sem Selfossliðið hafði greinilega betra úthald. Óregluleg dagskrá KR-inga í sumar hefur greinilega komið niður á forminu á liðinu en liðið hefur reglulega þurft að fara í sóttkví.

Leikurinn í dag var frestaður leikur úr 5. umferð deildarinnar og það er þétt dagskrá framundan hjá KR. Róðurinn mun eflaust þungast með hverjum leiknum en liðið er í botnsætinu með 10 stig en liðið á enn tvo leiki til góða á næstu lið fyrir ofan. Selfoss er í 3. sæti deildarinnar með 22 stig.

<div></div>
Selfoss 2:1 KR opna loka
90. mín. Leik lokið Iðnaðarsigur hjá Selfyssingum. KR áfram í basli á botninum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert