Enn versnar staða KR-inga

Dagný Brynjarsdóttir skoraði sigurmark Selfyssinga gegn KR í gær.
Dagný Brynjarsdóttir skoraði sigurmark Selfyssinga gegn KR í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Staða KR-inga er ekki glæsileg í Pepsí Max-deild kvenna í knattspyrnu en liðið er í neðsta sæti með 10 stig. KR tapaði 2:1 á Selfossi í gær eftir að hafa komist 1:0 yfir. Selfoss fór hins vegar upp fyrir Fylki og upp í 3. sæti deildarinnar með 22 stig.

Nú stendur fyrir dyrum hjá KR-liðinu að spila leiki sem liðið á til góða og mun liðið leika þrjá leiki á liðlega viku. Fram undan eru útileikir gegn Þrótti og Fylki sem verða 4. og 7. október. KR hefur nú leikið 13 leiki en flest lið deildarinnar eru búin með 15. Eins og fram hefur komið var kvennalið KR einstaklega seinheppið í glímunni við kórónuveiruna og þurfti liðið þrívegis að leggja niður æfingar í sumar.

„KR reyndi að færa sig framar á völlinn síðustu fimm mínúturnar, enda var jöfnunarmark þeim lífsnauðsynlegt. Það var þó lítill kraftur í þeim og reyndar virtist síðasti hálftíminn liðinu erfiður, þar sem Selfossliðið hafði greinilega betra úthald. Óregluleg dagskrá KR-inga í sumar hefur greinilega komið niður á forminu á liðinu en liðið hefur reglulega þurft að fara í sóttkví,“ skrifaði Guðmundur Karl meðal annars í umfjöllun sinni um leikinn á mbl.is í gær.

M-gjöfina úr leiknum má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert