Giskaði á rétt horn

Guðjón Orri Sigurjónsson.
Guðjón Orri Sigurjónsson. mbl.is/Árni Sæberg

Guðjón Orri Sigurjónsson var senuþjófurinn í leik Víkings og KR í Pepsí Max deild karla í knattspyrnu í kvöld. 

Guðjón tók stöðu Beits Ólafssonar sem tók út leikbann. Guðjón hélt hreinu í 2:0 sigri KR og varði vítaspyrnu frá Erlingi Agnarssyni og að auki dauðafæri frá Adam Ægi Pálssyni. Spurður um hvort Beitir nái að endurheimta stöðu sína í byrjunarliðinu eftir þessa frammistöðu Guðjóns sagðist Guðjón ekki eiga von á öðru.

„Nei nei Beitir er markvörður númer eitt. Hann er frábær markvörður og ég ætla ekki að vera með neinar yfirlýsingar en maður er alltaf tilbúinn til að spila. Beitir er hins vegar númer eitt, þannig er það bara,“ sagði Guðjón sem gat vart nýtt tækifærið betur. 

„Nei maður getur ekki beðið um mikið meira. Maður bíður eftir svona tækifærum og það er gott að grípa það eins og ég held að ég hafi gert. Þetta voru mikilvæg þrjú stig og ég er fyrst og fremst ánægður með sigurinn. Við þurftum virkilega á sigri að halda til að halda okkur í þessum pakka sem er að berjast um Evrópusætin. Þegar komið er á þetta stig í mótinu þá er dýrt að tapa stigum. Við höfðum fyrir þessu og það skilaði sér,“ sagði Guðjón ennfremur í samtali við mbl.is í Fossvoginum. 

Spurður út í vítið sjálft sagðist Guðjón hafa náð að lesa hvað Erling ætlaði að gera. „Ég horfði bara á hann og las hann. Það var ekkert annað að gera. Ég giskaði á rétt horn og var allan tímann með þetta skot,“ sagði Guðjón Orri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert