Keflvíkingurinn hafnaði Oldham

Sindri Kristinn Ólafsson í leik með Keflvíkingum sumarið 2018.
Sindri Kristinn Ólafsson í leik með Keflvíkingum sumarið 2018. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður Keflavíkur í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, hafnaði samningstilboði enska D-deildarfélagsins Oldham í gær en það voru Víkurfréttir sem greindu fyrst frá þessu.

Sindri, sem er 23 ára gamall, hefur leikið með Keflavík allan sinn feril og verið aðalmarkvörður liðsins frá 2015. 

Hann á að baki 35 leiki í efstu deild og þá á hann að baki 9 landsleiki fyrir U21-árs landslið Íslands.

Harry Kewell, fyrrverandi leikmaður Liverpool og Leeds, er þjálfari Oldham, en félagið var stofnað árið 1895.

Oldham bauð Sindra samning í gær sem hann þurfti að svara fyrir miðnætti en að lokum ákvað markvörðurinn að vera áfram í Reykjanesbæ.

Undanfarnir klukkutímar eru búnir að vera erfiðir,“ sagði Sindri í samtali við Víkurfréttir.

„En ákvörðunin liggur loksins fyrir eftir miklar vangaveltur. Ég er búinn að tala við alla mína nánustu, þá sem eru í kringum mig og ég tel að geti hjálpað mér á einhvern hátt með þessa ákvörðun.

Við komumst að sameiginlegri niðurstöðu. Að ég klára tímabilið með Keflavík,“ bætti Sindri við í samtali við Víkurfréttir en nánar er rætt við hann á heimasíðu Víkurfrétta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert