Myndatökumaður kostaði Gróttu háa fjársekt

Bryn­dís Rut Har­alds­dótt­ir og Tinna Jóns­dótt­ir berj­ast um bolt­ann í …
Bryn­dís Rut Har­alds­dótt­ir og Tinna Jóns­dótt­ir berj­ast um bolt­ann í leik Gróttu og Tindastóls á Vivaldi-vellinum í júlí. mbl.is/​Arnþór

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur sektað knattspyrnudeild Gróttu um 50.000 krónur vegna ummæla myndatökumanns á vegum félagsins á leik Gróttu og Keflavíkur í 1. deild kvenna, Lengjudeildinni, sem fram fór hinn 18. september síðastliðinn.

Leiknum lauk með 3:2-sigri Keflavíkur en það var Natasha Anasi sem skoraði sigurmark Keflavíkur á 68. mínútu.

Leikurinn var í beinni útsendingu á Grótta TV en myndatökumaðurinn, sem er stuðningsmaður Gróttu, var afar ósáttur með að markið skildi fá að standa.

„Hún var rangstæð! Hún var rangstæð! Hvað ertu að pæla maður!“ gargaði myndatökumaðurinn á dómara leiksins.

„Hvað ertu að dæma? Hvað ertu að hugsa? Hvernig var þetta ekki rangstæða? Ertu MORON? Hvernig geturðu ekki séð að þetta var rangstæða manneskja? Ertu með dómarapróf?“ lét myndatökumaðurinn meðal annars út úr sér.

Gróttumenn báðust samdægurs afsökunar á ummælunum og voru þau hörmuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert