Varamarkvörðurinn varði víti í sigri KR

Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Nikolaj Hansen og Kennie Chopart í fyrri …
Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Nikolaj Hansen og Kennie Chopart í fyrri leik liðanna í sumar. mbl.is/Sigurður Unnar

KR hafði betur gegn Víkingi í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Víkingsvellinum í kvöld 2:0 en þetta var frestaður leikur úr 14. umferð. 

KR-ingar voru snöggir að taka frumkvæðið í kvöld og skoruðu eftir aðeins 35 sekúndur. Íþróttafréttamenn hafa talað um óskabyrjun af minna tilefni. Óskar Örn átti góðan sprett og fór upp að endalínu hægra megin. Renndi út í teiginn á Ægi Jarl Jónasson sem skoraði auðveldlega.

Staðan var 1:0 að loknum fyrri hálfleik en í fyrri hálfleik fengu Víkingar upplagt tækifæri til að jafna þegar Adam Ægir fékk vítaspyrnu. Guðjón Orri Sigurjónsson varði hins vegar vítaspyrnu Erlings Agnarssonar sem hugðist renna boltanum í hægra hornið. Ekki slæmt fyrir varamarkvörð KR sem fékk tækifæri í kvöld þar sem Beitir Ólafsson er í leikbanni.

Í síðari hálfleik höfðu KR-ingar ágæt tök á leiknum og gekk vel að verja forskotið. Næst komust Víkingar því að jafna þegar varamaðurinn Kwame Quee slapp inn í teiginn hægra megin og skaut góðu skot sem small í samskeytunum.

Þeir bættu við öðru marki á 72. mínútu. Punyed sendi góða sendingu fram í hornið hægra megin. Þar var Chopart sem sendi góða fyrirgjöf fyrir markið. Boltinn kom við í varnarmanni Víkings en endaði hjá Óskari Erni Haukssyni sem var aleinn á fjærstönginni og þurfti ekki annað en að pota boltanum í markið.

KR-ingar eru með 27 stig en Víkingar eru í tíunda sætinu með 16 stig.

Víkinga vantar odd á spjótið

Stigin voru mikilvæg fyrir KR-inga en rýr uppskera á heimavelli í síðustu umferðum hafði gert stöðu þeirra verri. FH er í ágætri stöðu í 2. sæti en þar á eftir koma fjögur lið i mikilli baráttu um Evrópusæti og þar á meðal KR. 

Þótt meistararnir væru að spila gegn liði í 10. sæti þá voru það Víkingar sem voru með boltann á löngum köflum. Bæði lið voru ágætlega sátt við það held ég. Víkingar eru óvenjulegt lið. Þeir eru afar vel spilandi en mörkin láta á sér standa og liðið hefur aðeins unnið þrjá leiki. Þeir fengu kjaftshögg eftir hálfa mínútu eða svo og KR-ingar misstu þá forystu ekki niður og bættu við hana þegar átján mínútur voru eftir. 

Víkingar eru með marga netta leikmenn. Sumir hverjir heldur léttir og grannir ennþá og KR-ingar náðu stundum að nýta sér það í návígum. Gömlu mennirnir Sölvi Geir Ottesen og Kári Árnason voru ekki með og þá vantar meiri vöðva í Víkingsliðið.

Víkingum hefur gengið illa að skora og það breyttist ekki í kvöld. Vítaspyrna fór meira að segja í súginn. Víkinga vantar odd á spjótið og ekki bætir úr skák að Óttar Magnús Karlsson er farinn í atvinnumennsku. Í mörgum leikjum hefur vantað að opna varnir andstæðinganna þegar komið er fram völlinn en í kvöld geta Víkingar bent á góð færi sem þeir fengu. Áður hefur verið minnst á vítaspyrnuna og skot Kwame Quee í samskeytin. Guðjón varði frábærlega frá Adam Ægi af stuttu færi á 14. mínútu og skömmu síðar skallaði Davíð yfir úr miðjum teignum. 

KR-ingar fengu einnig færi og Ægir Jarl sem lék í framlínunni nýtti ekki nokkur ágæt skallafæri. Menn þurfa að nýta eitthvað af þeim færum sem tekst að skapa og KR-ingar gerðu það. 

Víkingur R. 0:2 KR opna loka
90. mín. Leik lokið KR-ingar ná í þrjú stig.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert