Vonandi fer mistökunum fækkandi

Anton Ari Einarsson, markvörður Breiðabliks.
Anton Ari Einarsson, markvörður Breiðabliks. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Ég er svekktur því ég hefði viljað vinna þennan leik,“ sagði Anton Ari Einarsson, markvörður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafntefli liðsins gegn KA í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Kópavogsvelli í kvöld.

„Það sem gerir þetta ennþá meira svekkjandi fyrir mig persónulega er að hafa gefið þeim þetta mark í fyrri hálfleik. Maður svekkir sig á því í kvöld og svo byrjar maður bara að hugsa um leikinn á sunnudaginn strax á morgun.

Þetta er orðið hálf þreytt að vera lenda í þessu í milljónasta skiptið í sumar þar sem við stjórnum ferðinni frá A til Ö en náum ekki að nýta okkur það sem skildi. Það þýðir hins vegar ekki að dvelja of mikið við það sem búið er og það eina sem við getum gert núna er að læra af þeim mistökum sem við gerðum og halda áfram.“

Blikaliðið hefur verið talsvert gagnrýnt fyrir spilamennsku sína í sumar en þrátt fyrir það er liðið í þriðja sæti deildarinnar með 28 stig.

„Við höfum sjálfir verið að svekkja okkur á úrslitum sumarsins í mörgum leikjum en eins og staðan er núna eru við í þriðja sæti og með örlögin í eigin höndum ef svo má segja.

Það er undir okkur komið að halda okkur þar og gera kannski alvöru atlögu að öðru sætinu líka. Við höldum því ótrauðir áfram veginn og þótt það sé búið að vera smá bras erum við engu að síður í þriðja sætinu sem er ágætt.“

Anton Ari hefur gert sig sekan um nokkur slæm mistök í sumar sem hafa kostað mörk.

„Það var viðbúið að það myndi taka tíma að koma sér inn í nýtt hlutverk og það var slæmt að missa alla leikina á undirbúningstímabilinu þar sem við hefðum getað slípað okkur aðeins betur saman.

Óskar bakkar okkur vel upp og það er viðbúið að menn geri mistök og hann er meðvitaður um það. Æfingin skapar meistarann og vonandi fer mistökum fækkandi og góðum hlutum fjölgandi,“ bætti Anton Ari við í samtali við mbl.is.

mbl.is