Um 1.500 áhorfendur á Laugardalsvelli

KSÍ bindur miklar vonir við að 1.500 áhorfendur verði viðstaddir …
KSÍ bindur miklar vonir við að 1.500 áhorfendur verði viðstaddir landsleiki íslenska liðsins í október. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, bindur vonir við að um 1.500 íslenskir stuðningsmenn geti verið viðstaddir næstu þrjá heimaleiki íslenska karlalandsliðsins sem fara allir fram í október en þetta kom fram á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

Ísland mætir Rúmeníu í umspili um laust sæti á EM 2020 og eftir það taka við tveir leikir gegn Danmörku og Belgíu í Þjóðadeild UEFA.

Í gær barst tilkynning frá UEFA um að áhorfendur yrðu leyfðir með takmörkunum í landsleikjum á vegum sambandsins í október og KSÍ telur að um 1.500 manns geti mætt á Laugardalsvelli.

„UEFA talaði um að hægt væri að nýta um 30% af vallarstæðum undir áhorfendur,“ sagði Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi KSÍ, á fundinum í dag.

„Eins og við metum þetta þá teljum við að um 1.500 áhorfendur geti verið viðstaddir landsleikina í október.

Við erum að tala um mjög umfangsmiklar sóttvarnareglur sem þarf að fylgja á öllum leikjunum og það verða sérstakir eftirlitsmenn frá UEFA sem sjá um að þeim verði öllum framfylgt,“ bætti Ómar við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert