Lennon með þrennu á Skaganum

Úr leik liðanna fyrr í sumar.
Úr leik liðanna fyrr í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Skotinn Steven Lennon skoraði þrennu er FH-ingar unnu 4:0-sigur á ÍA á Akranesi í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í dag og komu sér í 36 stig þar sem þeir sitja sem fastast í 2. sæti deildarinnar. Skagamenn sigla lygnan sjó í deildinni og hafa 21 stig í 8. sæti.

Stór skörð voru hoggin í lið ÍA í dag en þeir Stefán Teitur Þórðarson og Tryggvi Hrafn Haraldsson voru báðir fjarverandi í dag þar sem þeir tóku út leikbann. Það munaði um minna. Fremstur í liði Skagamanna í dag var hinn 16 ára gamli Ingi Þór Sigurðsson sem lék sinn fyrsta byrjunarliðsleik, en hann er bróðir Arnórs Sigurðssonar, leikmanns CSKA Moskvu.

Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en þegar líða tók á fyrri hálfleikinn hertu gestirnir úr Hafnarfirðinum tökin. Þeir spiluðu boltanum einfalt á milli sín og settu knöttinn iðulega upp í rennurnar á milli bakvarðar og miðvarðar Skagamanna. Á 34. mínútu heppnaðist loks ein slík sókn FH-inga er Pétur Viðarsson fékk knöttinn hægra megin og renndi fyrir á Steven Lennon sem fékk tíma til þess að taka á móti boltanum í teignum og setti einfalt í fjærhornið, 1:0.

Eftir slappan síðari hluta fyrri hálfleiks komu Skagamenn nokkuð ferskir inn í þann seinni, færðu lið sitt framar á völlinn og komust reglulega í fínar sóknarstöður án þess þó að skapa sér mörg færi.

Nálgun FH-inga í dag var afar fagmannleg og þeir sýndu klærnar er þeir skoruðu mark úr sinni fyrstu marktilraun í síðari hálfleik á 76. mínútu, 2:0. Þá skallaði Jónatan Ingi Jónsson boltann í netið eftir sendingu frá Baldri Loga Guðlaugssyni, 3:0 en aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Lennon úr vítaspyrnu eftir að boltinn hafði farið í hönd Ísaks Snæs. Á 90. mínútu slapp svo Baldur Logi inn fyrir vörn kærulausra Skagamanna, renndi knettinum á Steven Lennon sem fullkomnaði þrennuna, 4:0.

Það sást á leik Skagamanna í dag að þeir eru ekki að spila upp á mikið, Akraborgin siglir lygnan sjó um miðja deild á meðan FH-ingar eiga einn möguleika á titlinum, þó lítill sé.

FH-ingar gerðu nóg í dag en ekki mikið meira en það þrátt fyrir að hafa unnið leikinn með fjórum mörkum en mörkin þrjú sem þeir gerðu í síðari hálfleik komu tiltöluluega áreynslulaust sem sýnir kannski þau miklu gæði sem búa í FH-liðinu. Steven Lennon var sem fyrr öflugur fyrir FH-inga í dag með þrjú mörk og þá stýrði Guðmundur Kristjánsson varnarleik sinna manna með stakri prýði.

Einna sprækastur í liði heimamanna í dag var Aron Kristófer Lárusson sem lék í dag á vinstri kanti og olli hann Pétri Viðarssyni og Guðmanni Þórissyni oft og tíðum vandræðum með hraða sínum og krafti, sér í lagi í fyrri hálfleik. Þá var Brynjar Snær Pálsson einnig öflugur á miðju Skagamanna.

ÍA 0:4 FH opna loka
90. mín. Steven Lennon (FH) skorar MARK! Steven Lennon með þrennu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert