Meðlimir Tólfunnar fá 60 miða á landsleikina

Tólfan fær að mæta á Laugardalsvöll.
Tólfan fær að mæta á Laugardalsvöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allir þrír leikir íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem eiga að fara fram í október í annars vegar undanúrslitum umspils fyrir EM og hins vegar Þjóðadeild UEFA munu fara fram á tilsettum tíma.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem KSÍ sendi frá sér en hins vegar verða engir áhorfendur á leikjunum eins og til stóð.

Vonir voru bundnar við að tæplega 1.000 áhorfendur gætu mætt á völlinn en af því verður ekki og verða allir miðar á leikina endurgreiddir.

Tólfan, stuðningsmannasveit íslenska karlalandsliðsins, fær hins vegar að mæta á Laugardalsvöll og verða 60 miðar í boði fyrir meðlimi hennar.

Ísland mætir Rúmeníu á morgun í undanúrslitum um umspil fyrir EM og leikur svo gegn Danmörku 11. október og Belgíu 14. október. Allir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.

„Í samstarfi við bakhjarla KSÍ verða þó Tólfunni boðnir 60 miðar í þremur sóttvarnarhólfum á leikina til að tryggja Tólfu-stemningu á vellinum og styðja við íslenska liðið í þessu mikilvæga verkefni,“ segir í tilkynningu frá KSÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert