Tvö mörk frá Gylfa og Ísland í úrslitaleik í Búdapest

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson var að vonum sáttur í leikslok.
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson var að vonum sáttur í leikslok. mbl.is/Eggert

Ísland er komið í úrslitaleikinn í umspilinu um sæti í lokakeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu 2021 eftir sigur á Rúmenum í undanúrslitaleiknum á Laugardalsvellinum í kvöld, 2:1.

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði bæði mörk Íslands sem var 2:0 yfir í hálfleik. Sanngjarn sigur þrátt fyrir talsverða sókn Rúmena seinni hluta leiksins en þeir sköpuðu sér aldrei færi til að jafna metin þó þeir hefðu minnkað muninn úr vítaspyrnu á 63. mínútu leiksins.

Þar með eru það Ungverjaland og Ísland sem leika til úrslita um sæti í lokakeppninni og mætast í Búdapest 12. nóvember. Ungverjar sigruðu Búlgara 3:1 í Sofia í hinum undanúrslitaleik A-umspilsins í kvöld.

Erik Hamrén var sáttur í leikslok.
Erik Hamrén var sáttur í leikslok. mbl.is/Eggert

Íslenska liðið byrjaði leikinn af miklum krafti en Rúmenar stóðu það af sér og áttu ágætan kafla í kjölfarið, m.a. tvær hornspyrnur á fyrsta korterinu.

Á 16. mínútu náði Ísland forystunni. Jóhann Berg Guðmundsson fékk boltann á vítateigslínunni, aðeins til hægri, og renndi honum til hliðar á Gylfa Þór Sigurðsson. Hann sneri sér með boltann á vítateigslínunni og skaut á milli fóta varnarmanns og óverjandi í hægra markhornið niðri, 1:0.

Gylfi var aftur á ferðinni sex mínútum síðar þegar hann sneri sér með boltann rétt utan vítateigs og átti gott skot sem Ciprian Tatarusanu markvörður varði í horn.

Birkir Bjarnason og Kolbeinn Sigþórsson eigast við.
Birkir Bjarnason og Kolbeinn Sigþórsson eigast við. mbl.is/Eggert

Alfreð Finnbogason fékk sendingu í gegnum vörn Rúmena frá Gylfa á 27. mínútu og vippaði boltanum skemmtilega yfir markvörðinn og í netið. Beðið var í tvær mínútur eftir niðurstöðu myndbandadómaranna sem að lokum úrskurðuðu réttilega að Alfreð hefði verið rangstæður. En það stóð tæpt.

En boltinn hafnaði í þriðja sinn í rúmenska markinu á 34. mínútu. Alfreð sneiddi boltann skemmtilega yfir varnarmann og á Gylfa sem var við vítateigslínuna, aðeins til hægri. Hann tók vel við boltanum og lagði hann yfirvegað með vinstra fæti í vinstra markhornið. Ísland var komið í 2:0.

Rúmenar náðu ekki að ógna marki Íslands að ráði á lokakafla hálfleiksins og Ísland fór með sanngjarna 2:0 forystu inn í leikhléð.

Damir Skomina hugsar sig vel um áður en hann dæmir …
Damir Skomina hugsar sig vel um áður en hann dæmir vítaspyrnu. mbl.is/Eggert

Rúmenar skiptu alveg um sóknarlínu í hálfleik og mættu til leiks eftir hlé með þrjá nýja sóknarmenn. En íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn vel og átti þrjár marktilraunir á fyrstu fimm mínútunum.

Ótrúleg atburðarás og vítaspyrna

En síðan tók við ótrúleg atburðarás. Ísland fékk sannkallað dauðafæri á 58. mínútu. Guðlaugur Victor Pálsson brunaði upp allan hægri kantinn í skyndisókn og sendi síðan inn í vítateiginn þar sem Arnór Ingvi Traustason var sloppinn einn gegn Tatarusanu sem varði vel frá honum.

En þá stöðvaði Damir Skomina leikinn, skoðaði atvik úr sókn Rúmena á undan í 2-3 mínútur og dæmdi að lokum vítaspyrnu á Ragnar Sigurðsson.

Úr henni skoraði Alexandru Maxim af öryggi, 2:1, á 63. mínútu, og Rúmenar voru komnir inn í leikinn á ný.

Kári Árnason sækir að marki Rúmena.
Kári Árnason sækir að marki Rúmena. mbl.is/Eggert

Þeir sóttu talsvert í kjölfarið, fengu m.a. tvær hornspyrnur með stuttu millibili en komust ekki í nein færi og íslenska liðið vann sig smám saman út úr pressunni.

Þrátt fyrir þunga sókn á lokakaflanum fengu Rúmenar engin færi til að jafna metin og íslenska liðið hélt út til leiksloka með öflugum varnarleik.

Varnarleikurinn til fyrirmyndar

Varnarleikur íslenska liðsins var til fyrirmyndar frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og það gaf aldrei nein færi á sér . Vítaspyrnan var eina skot Rúmena á mark Íslands í leiknum og óhætt er að segja að hún hafi ekki komið upp úr neinu marktækifæri.

Gylfi Þór Sigurðsson er að öðrum ólöstuðum maður leiksins hjá íslenska liðinu og hann hafði þau gæði sem skildu á milli liðanna í þessum mikilvæga leik. Tvö virkilega góð mörk frá honum í fyrri hálfleiknum gerðu út um leikinn.

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar öðru marki sínu ásamt Guðlaugi Victori …
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar öðru marki sínu ásamt Guðlaugi Victori Pálssyni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá átti Guðlaugur Victor Pálsson sérlega góðan leik sem hægri bakvörður. Victor var öflugur í stað Arons Einars sem varnartengiliður gegn Englendingum, enda er það hans vanalega staða á vellinum, en hann leysir bakvarðarstöðuna virkilega vel. Annars var þetta sigur liðsheildar - þarna var gamla góða landsliðið að stærstum hluta komið aftur, leikmenn sem gjörþekkja hver annan og búa yfir gríðarlegri reynslu, og þeir voru einfaldlega of reyndir og klókir fyrir Rúmena í þessum leik.

Víkingaklapp í boði Tólfunnar.
Víkingaklapp í boði Tólfunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nú bíður risastórt verkefni íslensku leikmannanna í Búdapest 12. nóvember þar sem þeir mæta Ungverjum í hreinum úrslitaleik á þeirra heimavelli. Þá verður EM-sætið undir - og leikir gegn stórþjóðunum Frakklandi, Þýskalandi og Portúgal sem bíða í riðlinum í lokakeppninni næsta sumar. Ef þessi hópur fer í þriðja skipti í röð á stórmót þá verður það magnað afrek, og íslensku leikmennirnir sýndu í kvöld að þeir hafa bæði gæðin og reynsluna til þess að fara alla leið og sigra Ungverja eftir fimm vikur. Við bíðum spennt!

Markið fær ekki að standa vegna rangstöðu.
Markið fær ekki að standa vegna rangstöðu. mbl.is/Kristinn Magnússon
Alfreð Finnbogason skorar.
Alfreð Finnbogason skorar. mbl.is/Kristinn Magnússon
Alfreð Finnbogason skorar en markið fær ekki að standa.
Alfreð Finnbogason skorar en markið fær ekki að standa. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar fyrsta marki sínu ásamt Guðlaugi Victori …
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar fyrsta marki sínu ásamt Guðlaugi Victori Pálssyni og Aroni Einari Gunnarssyni. mbl.is/Eggert
Gylfi Þór fagnar ásamt liðsfélögum sínum.
Gylfi Þór fagnar ásamt liðsfélögum sínum. mbl.is/Kristinn Magnússon
Gylfi Þór færir boltann yfir á vinstri rétt áður en …
Gylfi Þór færir boltann yfir á vinstri rétt áður en hann lætur vaða á markið. mbl.is/Kristinn Magnússon
Guðlaugur Victor Pálsson skallar frá marki.
Guðlaugur Victor Pálsson skallar frá marki. mbl.is/Eggert
Hörður Björgvin Magnússon sækir að marki Rúmena.
Hörður Björgvin Magnússon sækir að marki Rúmena. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Eggert
Jóhann Berg Guðmundsson í baráttunni við Mario Camora.
Jóhann Berg Guðmundsson í baráttunni við Mario Camora. mbl.is/Eggert
Ciprian Tatarusanu kýlir frá marki.
Ciprian Tatarusanu kýlir frá marki. mbl.is/Eggert
Gylfi Þór Sigurðsson í baráttunni við Mihai Balasa, leikmann Rúmena.
Gylfi Þór Sigurðsson í baráttunni við Mihai Balasa, leikmann Rúmena. mbl.is/Eggert
Byrjunarlið Íslands.
Byrjunarlið Íslands. mbl.is/Eggert
Tólfan er mætt og byrjuð að láta vel í sér …
Tólfan er mætt og byrjuð að láta vel í sér heyra. mbl.is/Eggert
Íslensku leikmennirnir hita upp af krafti í Laugardal í kvöld.
Íslensku leikmennirnir hita upp af krafti í Laugardal í kvöld. mbl.is/Eggert
Hannes Þór Halldórsson er á sínum stað í markinu.
Hannes Þór Halldórsson er á sínum stað í markinu. mbl.is/Eggert
Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson hita upp fyrir …
Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson hita upp fyrir leikinn. mbl.is/Eggert
Ísland 2:1 Rúmenía opna loka
90. mín. 5 mínútur í uppbótartíma
mbl.is

Bloggað um fréttina