Aðeins ein hindrun eftir á leiðinni

Gylfi Þór Sigurðsson og Guðlaugur Victor Pálsson voru í stórum …
Gylfi Þór Sigurðsson og Guðlaugur Victor Pálsson voru í stórum hlutverkum hjá íslenska liðinu í gærkvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland á nú aðeins eina hindrun eftir á leið sinni að lokakeppni EM karla í knattspyrnu sem upphaflega var kallað EM 2020 en fer fram næsta sumar. Ísland vann að mér fannst sanngjarnan sigur á Rúmeníu 2:1 á Laugardalsvelli í gærkvöldi.

Er þar með fyrri leik Íslands í umspilinu lokið og íslenska liðsins bíður hreinn úrslitaleikur gegn Ungverjalandi í Búdapest hinn 12. nóvember um laust sæti í lokakeppninni.

Ísland var yfir 2:0 að loknum fyrri hálfleik með tveimur laglegum mörkum frá Gylfa Þór Sigurðssyni. Ekki virtist vera neitt í kortunum um að Rúmenar næðu að vinna sig inn í leikinn. Í fyrsta skipti á Íslandi var stuðst við myndbandstækni í dómgæslu í knattspyrnuleik og eftir vídeógláp dæmdi dómarinn kunni, Damir Skomina, víti á Ísland. Úr því skoraði Alexandru Maxim á 63. mínútu og hleypti spennu í leikinn. En Rúmenar náðu ekki að skapa sér mörg alvörumarktækifæri til að jafna leikinn þrátt fyrir að hafa fengið óvæntan meðbyr.

Ekkert óðagot

Menn geta velt því fyrir sér hvort endurnýja eigi í landsliðinu og þá hversu mikið. Í leik sem þessum þar sem spennustigið er afar hátt er ekki nokkur spurning að heppilegt var að eiga reynda landsliðsmenn sem leikið hafa marga spennuleiki. Okkar menn voru miklu rólegri til að byrja með en gestirnir og var það nokkuð áberandi.

Reynslan kom sér einnig vel á lokakafla leiksins þegar Ísland var marki yfir og andstæðingarnir reyndu að hleypa leiknum upp og jafna. Íslenska liðið, sem hefur svo margoft verið í þeirri stöðu að verja markið og eins marks forskot eða jafntefli, var yfirvegað. Leikmenn þekkja þá stöðu orðið afskaplega vel og skipulagið er til fyrirmyndar hjá landsliðsþjálfaranum sem og þeim sem voru á undan honum í starfi.

Ég átta mig illa á því hvað Rúmenar ætluðu að gera gegn íslenska liðinu og hvernig þeir ætluðu að vinna leikinn. Þegar íslenska liðið náði að stilla upp í handboltavörnina frægu virtust Rúmenarnir ekki eiga nokkra möguleika á að opna vörnina. Betri lið en Rúmenía hafa svo sem rekið sig á það. Hitt sem hefur svo mögulega komið Rúmenum meira á óvart var að íslenska liðið pressaði á köflum og gerði það vel. Hlaupageta Gylfa kom þar að góðum notum þar sem hann lék í fremstu víglínu í þetta skiptið.

Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag ásamt frekari umfjöllun um sigur Íslands og M-einkunnagjöf til leikmanna

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert