Leikmannasamtökin birta niðurstöður könnunarinnar

Af konunum vilja rúm 47 prósent hætta keppni á Íslandsmótinu.
Af konunum vilja rúm 47 prósent hætta keppni á Íslandsmótinu. mbl.is/Íris

Leikmannasamtökin hafa birt skoðanakönnunina sem gerð var meðal leikmanna í efstu deildum karla og kvenna í fótbolta, Pepsi Max-deildunum, um hvort rétt væri að halda áfram keppni á Íslandsmótinu eða hvort ætti að hætta keppni og láta bráðabirgðareglugerð KSÍ um sætaröðun ráða lokastöðu mótanna.

Eins og fram kom um helgina vill um það bil helmingur leikmanna í kvennadeildinni hætta keppni en heldur færri úr karladeildinni.

Frá karlaliðunum tóku 197 leikmenn þátt í könnuninni, flestir frá KR og KA, 20 frá hvoru félagi, en fæstir frá ÍA, þrettán leikmenn.

Af þeim vildu 86 ekki hætta keppni, 43,65 prósent, 71 vildi hætta keppni, eða 36,04 prósent, en 40 voru hlutlausir, eða 20,3 prósent.

102 af körlunum óttuðust ekki að þurfa að fara í sóttkví eða einangrun en 95 óttuðust það.

100 af körlunum óttuðust að fá kórónuveiruna, 94 óttuðust það ekki en 3 kváðust þegar hafa fengið veiruna.

129 af körlunum segja að þeirra félag hafi lækkað laun þeirra í fyrstu bylgju kórónuveirunnar, einn að það hafi verið gert í annarri bylgju, sautján að það hafi verið gert í fyrstu og annarri, en 50 leikmenn, eða rúm 25 prósent svöruðu að laun þeirra hefðu ekki verið lækkuð.

Þá segja 105 að launalækkun hafi verið gerð í sátt við allan leikmannahópinn, 18 að það hafi ekki verið sátt um það, en 70 svara að þeir viti það ekki.

112 af körlunum segja að launalækkunin sé tímabundin en 23 að hún sé varanleg. 62 segja að launin hafi ekki verið lækkuð.

Aðeins tveir leikmenn segja að félag þeirra hafi reynt að endursemja um laun og fríðindi en þeir hafi hafnað því, fari svo að KSÍ stöðvi mótið. Fjórir segja að þeir hafi þegar samþykkt slíkt við sitt félag en 191 segir að þetta hafi ekki verið til umræðu.

Af körlunum vilja 36 prósent hætta keppni.
Af körlunum vilja 36 prósent hætta keppni. mbl.is/Íris

Rúm 47 prósent kvenna vilja hætta

Úr kvennaliðunum tóku 177 leikmenn þátt í könnuninni. Flestar frá FH, 25 talsins, en fæstar frá Fylki, 13 talsins.

Af þeim vildu 59 ekki hætta keppni, 33,3 prósent, 84 vildi hætta keppni, eða 47,46 prósent, en 34 voru hlutlausar, eða 19,21 prósent.

49 af konunum óttuðust ekki að þurfa að fara í sóttkví eða einangrun en 128 óttuðust það.

45 af konunum óttuðust ekki að fá kórónuveiruna, 128 óttuðust það en 4 kváðust þegar hafa fengið veiruna.

74 af konunum segja að þeirra félag hafi lækkað laun þeirra í fyrstu bylgju kórónuveirunnar, 3 að það hafi verið gert í annarri bylgju, 19 að það hafi verið gert í fyrstu og annarri, en 81  leikmaður, eða tæp 46 prósent, svöruðu að laun þeirra hefðu ekki verið lækkuð.

Þá segja 59 að launalækkun hafi verið gerð í sátt við allan leikmannahópinn, 12 að það hafi ekki verið sátt um það, en 101 svara að þeir viti það ekki.

65 af konunum segja að launalækkunin sé tímabundin en 10 að hún sé varanleg. 102 segja að launin hafi ekki verið lækkuð.

Aðeins fimm leikmenn segja að félag þeirra hafi reynt að endursemja um laun og fríðindi en þeir hafi hafnað því, fari svo að KSÍ stöðvi mótið. Fjórar segja að þær hafi þegar samþykkt slíkt við sitt félag en 168 segja að þetta hafi ekki verið til umræðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert