Myndi breyta miklu fyrir KA að fá gervigras

Arnar Grétarsson tók við liði KA um mitt sumar og …
Arnar Grétarsson tók við liði KA um mitt sumar og skrifaði undir tveggja ára samning við félagið á dögunum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Knattspyrnuþjálfarinn Arnar Grétarsson tók við liði KA á miðju sumri og ákvað þá að stýra liðinu út tímabilið. Arnar kann vel við sig hjá KA og gerði á dögunum nýjan samning sem gildir næstu tvö árin.

„Mér líst bara mjög vel á þetta. Þegar maður fór norður í júlí þá horfði maður á verkefnið til skamms tíma til að byrja með. Svo kæmi í ljós hvernig manni myndi lítast á þetta. Hvernig samvinnan myndi ganga og fleira. Ég kynntist yndislegu fólki á Akureyri og hef haft gaman af því að vinna með því,“ sagði Arnar þegar Morgunblaðið spjallaði við hann í gær en fjölskylduaðstæður voru það sem Arnar þurfti helst að velta fyrir sér varðandi búferlaflutningana.

„Ég skil fjölskylduna eftir á höfuðborgarsvæðinu. Börnin eru reyndar farin að heiman en ég skil konu og þrjú dýr eftir. Það verður meira álag á henni fyrir vikið. Hún er í góðu starfi og því kom ekki til greina fyrir hana að koma með norður. Það gerði ákvörðunina vissulega erfiðari. Varðandi liðið og leikmannahópinn þá eru margir ungir og efnilegir strákar í hópnum í bland við aðra sem hafa reynslu. Það verða einhverjar breytingar á hópnum eins og er alltaf í þessu og við munum líklega reyna að sækja einhverja þrjá leikmenn. Við erum með töluvert af leikmönnum sem hafa burði til að gera flotta hluti. Það er svo hlutverk okkar þjálfaranna að búa til gott lið.“

Hefur trú á félaginu

Úrslitin í sumar sýna að ekki er heiglum hent að leggja KA-menn að velli því liðið hefur aðeins tapað þremur leikjum af átján og aðeins einum af þrettán undir stjórn Arnars. Jafnteflin eru hins vegar tólf og er liðið í 7. sæti með 21 stig. Hvað sér Arnar fyrir sér varðandi næsta keppnistímabil?

„Erfitt er að segja til um það. Mér finnst skipta miklu máli í því samhengi hvort við verðum á Greifavelli eða á gervigrasi. Það myndi breyta miklu fyrir félagið að fá slíkan völl og myndi gera hlutina miklu skemmtilegri að fara í þannig umhverfi. Ég tel óraunhæft að spila á Greifavellinum og ætla sér stóra hluti og ég hef sagt það við stjórnarmenn.“ 

Viðtalið við Arnar má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert