Sara reiknar með að spila á ný á föstudaginn

Sara Björk Gunnarsdóttir á fullri ferð í leiknum við Svía …
Sara Björk Gunnarsdóttir á fullri ferð í leiknum við Svía 22. september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði í knattspyrnu hefur ekkert náð að spila með Evrópu- og Frakklandsmeisturum Lyon eftir að hún lék með íslenska landsliðinu gegn Lettum og Svíum 17. og 22. september.

Sara hefur misst af þeim þremur leikjum sem Lyon hefur spilað í frönsku 1. deildinni frá þeim tíma en það eru sigurleikir gegn Bordeaux, 2:1, Fleury, 3:0, og síðast gegn Dijon í gær, 2:0.

„Ég er búin að vera slæm í hásinunum í smá tíma og þar af leiðandi ekki getað tekið þátt í þessum leikjum. Ég er að komast aftur af stað í þessari viku og reikna með því að vera með á föstudaginn kemur," sagði Sara  við mbl.is í kvöld en Lyon á heimaleik gegn Guingamp á föstudagskvöldið.

Það er síðasti leikurinn fyrir næsta landsleikjahlé en framundan er stóri leikurinn gegn Svíum í Gautaborg 27. október, en það er nánast hreinn úrslitaleikur um sæti í lokakeppni Evrópumótsins á Englandi 2022.

„Svo framarlega sem þetta gengur vel hjá mér í þessari viku þá ætti sá leikur alls ekki að vera í hættu," sagði Sara við mbl.is en auk þess að um algjöran lykilleik er að ræða þá getur Sara slegið landsleikjamet Katrínar Jónsdóttur í þeim leik og spilað sinn 134. landsleik fyrir Íslands hönd.

Ísland og Svíþjóð eru með 13 stig hvort á toppi undanriðilsins en liðin skildu jöfn, 1:1, í hörkuleik á Laugardalsvellinum 22. september. Eftir Svía leikinn eru eftir útileikirnir gegn Slóvakíu og Ungverjalandi 26. nóvember og 1. desember en þá á riðlakeppninni að ljúka.

Lyon, lið Söru, er á hefðbundnum stað á toppi frönsku 1. deildarinnar með fullt hús, 15 stig eftir fimm fyrstu umferðirnar og tveggja stiga forystu á aðalkeppinautinn, París SG. Nýliðar Le Havre, sem Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Anna Björk Kristjánsdóttir leika með, er í 10. sæti af 12 liðum með 4 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert