Nýtt starfsmannateymi landsliðsins klárt

Arnar Þór Viðarsson verður meðal annarra á hliðarlínunni.
Arnar Þór Viðarsson verður meðal annarra á hliðarlínunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þar sem þjálfarar og annað starfsfólk í kringum íslenska karlalandsliðið í fótbolta eru komin í sóttkví hefur nýtt starfsmannateymi liðsins verið kynnt til leiks. Verður teymið á hliðarlínunni gegn Belgíu í Þjóðadeild UEFA annað kvöld. 

Í þjálfarateyminu gegn Belgum verða Arnar Þór Viðarsson, þjálfari U21 landsliðs karla, og Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U17 landsliðs karla, sem og Þórður Þórðarson, þjálfari U19 landsliðs kvenna, sem verður markmannsþjálfari. Aðrir starfsmenn liðsins koma úr röðum A-landsliðs kvenna og yngri landsliða karla og kvenna, samkvæmt frétt á vefsíðu KSÍ í kvöld. 

Greint var frá því fyrr í dag að Þorgrímur Þráinsson, starfsmaður KSÍ, hefði greinst með kórónuveiruna. Fyrir vikið fór stór hluti starfsfólks sambandsins í sóttkví og þar á meðal þjálfararnir Erik Hamrén og Freyr Alexandersson. Fá þeir að vera á vellinum, en ekki á hliðarlínunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert