Smit í kringum íslenska karlalandsliðið?

Frá æfingu íslenska karlalandsliðsins í Kaplakrika á laugardaginn síðasta.
Frá æfingu íslenska karlalandsliðsins í Kaplakrika á laugardaginn síðasta. mbl.is/Íris

Óstaðfestur grunur er um kórónuveirusmit í umhverfi íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu en þetta staðfesti Klara Bjartmarz, framkvæmdastýra KSÍ, í samtali við Fótbolta.net í dag.

Í frétt Fótbolta.net um málið kemur fram að skömmu áður en íslenska liðið mætti til æfinga í dag var borð með drykkjum leikmanna tæmt og öllu hellt niður.

Erik Hamrén og Freyr Alexandersson, þjálfara liðsins, funduðu svo með þjálfarateyminu ásamt Klöru og öðrum starfsmönnum KSÍ.

Eftir það var allt sótthreinsað á Laugardalsvelli, bæði boltar og allur búnaður sem leikmenn eru vanir að nota á æfingum.

Klara staðfesti í samtali við Fótbolta.net að allar sóttvarnir hefðu verið hækkaðar um eitt stig en Ísland mætir Belgíu í Þjóðadeild UEFA á Laugardalsvelli á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert