Sakaður um að brjóta sóttvarnareglur

Leikmenn Íslands fagna eftir sigurinn gegn Rúmeníu.
Leikmenn Íslands fagna eftir sigurinn gegn Rúmeníu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorgrímur Þráinsson braut reglur UEFA og íslenskar sóttvarnareglur eftir leik Íslands og Rúmeníu hinn 8. október síðastliðinn þegar hann gekk inn á völlinn og fagnaði með leikmönnum liðsins en það er Fréttablaðið sem fjallar um málið í dag.

Ísland vann 2:1-sigur gegn Rúmeníu í undanúrslitum umspils fyrir EM en þar sem Þorgrímur var ekki á skýrslu í leiknum var honum ekki heimilt að ganga inn á völlinn og fagna með leikmönnum.

Þorgrímur greindist með kórónuveiruna eftir leik Íslands og Danmerkur á Laugardalsvelli í Þjóðadeildinni hinn 11. október.

Allt starfslið Íslands þurfti því að fara í sóttkví vegna þessa og gátu Erik Hamrén og Freyr Alexandersson til að mynda ekki stýrt liðinu í gær gegn Belgum þar sem þeir voru í sóttkví.

Reglur UEFA kveða á um algjöran aðskilnað milli leikmanna og starfsmanna, hvort sem um matmálstíma er að ræða, ferðalög eða á æfingunum sjálfum.

Bæði Þorgrímur og Magnús Gylfason, sem er formaður landsliðsnefndar, ruku inn á völlinn eftir sigurinn en Magnús var þó með andlitsgrímu.

Arnar Þór Viðarsson og Davíð Snorri Jónasson stýrðu íslenska liðinu gegn Belgum í gær í fjarveru Hamréns og Freys en leiknum lauk með 2:1-sigri Belga.

mbl.is