Freyr verður aðstoðarþjálfari Heimis í Katar

Freyr Alexandersson
Freyr Alexandersson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Freyr Alexandersson aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta er við það að samþykkja starfstilboð Al-Arabi í Katar, en hann verður aðstoðarþjálfari Heimis Hallgrímssonar. Knattspyrnusamband Íslands staðfesti tíðindin í kvöld. 

Mun Freyr halda starfi sínu hjá landsliðinu áfram samhliða því að aðstoða Heimi. Unnu Heimir og Freyr saman hjá landsliðinu á sínum tíma og sá Freyr m.a. við leikgreiningu á meðan Heimir var landsliðsþjálfari.

Freyr hefur verið aðstoðarþjálfari Eriks Hamréns hjá karlalandsliðinu síðustu rúmu tvö ár, en var áður aðalþjálfari kvennalandsliðsins og þar á undan þjálfari karlaliðs Leiknis í Reykjavík.

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson leikur með Al-Arabi og hefur gert síðan á miðju síðasta ári, en Heimir tók við liðinu í lok árs 2018. 

mbl.is