Gengið á ýmsu frá því þjálfarinn tók til starfa

Elín Metta Jensen, Sveindís Jane Jónsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Alexandra …
Elín Metta Jensen, Sveindís Jane Jónsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Alexandra Jóhannsdóttir fagna marki Elínar gegn Svíum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þriðja bylgja kórónuveirufaraldursins hefur sett undirbúning íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu í uppnám fyrir leik liðsins gegn Svíþjóð í undankeppni EM á Ullevi-vellinum í Gautaborg í Svíþjóð hinn 27. október næstkomandi.

Íslenska liðið er með 13 stig í öðru sæti F-riðils undankeppninnar eftir fimm spilaða leiki, jafn mörg stig og Svíþjóð, en Svíar hafa skorað fjórum mörkum meira.

Æfinga- og keppnisbann er á höfuðborgarsvæðinu þessa dagana vegna faraldursins en íslenski landsliðshópurinn, sem var kynntur 9. október síðastliðinn, kemur saman til æfinga á mánudaginn kemur.

„Það hefur gengið á ýmsu í okkar undirbúningi og skipulaginu líka,“ sagði Jón Þór í samtali við Morgunblaðið í gær. „Við komum saman á mánudaginn kemur og markmiðið var að byrja hérna heima fyrst en það ræðst aðeins af því hvernig fer með þetta æfinga- og keppnisbann sem nú er við lýði á höfuðborgarsvæðinu og hvort því verður aflétt á mánudaginn.

Ef bannið verður framlengt reynum við að fara fyrr út til Svíþjóðar með liðið ef við megum ekki og getum ekki æft hérna heima. Þetta er ekki ákjósanleg staða, svo ég sé nú bara hreinskilinn með það. Í sjálfu sér hefur þetta ekki mikil áhrif á okkar upplegg í leiknum eða undirbúninginn þannig séð en stærsti óvissuþátturinn er auðvitað bara hvenær og hvar liðið getur komið saman.“

KSÍ reynslunni ríkara

Jón Þór ítrekar að það sé að mörgu að huga fyrir leikinn mikilvæga í Gautaborg.

„Við erum búin að teikna upp nokkrar sviðsmyndir að því hvernig við getum gert hlutina ef allt fer á versta veg. Ein útfærsla er að fara snemma með liðið til Svíþjóðar, æfa og undirbúa sig fyrir leikinn þar, en það gæti líka reynst erfitt upp á flug og annað með stuttum fyrirvara.

Það hefur gengið á ýmsu hérna heima að undanförnu, bæði í kringum karla- og U21-árs landsliðið, og verið nóg að gera hjá KSÍ. Á sama tíma er þetta dýrmæt reynsla sem sambandið öðlast með þessum uppákomum og þetta kennir manni að við þurfum að vera við öllu búin í því ástandi sem ríkir í heiminum í dag.“

Ef við lendum í smiti eða sóttkví í Svíþjóð sem dæmi þurfum við að vera tilbúin að eiga við það og það er einn liður í undirbúningi okkar fyrir Svíþjóðarferðina. Það er því að mörgu að huga og að því leyti er þetta kannski aðeins frábrugðið hinum venjulega keppnisleik.“

Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert