Hermann verður áfram í Vogunum

Marteinn Ægisson framkvæmdstjóri Þróttar, Hermann Hreiðarsson og Petra R. Rúnarsdóttir …
Marteinn Ægisson framkvæmdstjóri Þróttar, Hermann Hreiðarsson og Petra R. Rúnarsdóttir formaður Þróttar við undirritunina.

Hermann Hreiðarsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur framlengt samning sinn sem þjálfari Þróttar úr Vogum en hann er með liðið í toppbaráttu 2. deildar karla eftir að hafa tekið við stjórn þess snemma á þessu tímabili.

Þróttarar hafa unnið ellefu leiki af sextán í deildinni frá því Hermann tók við og eru í þriðja sæti, tveimur stigum á eftir Selfyssingum þegar tveimur umferðum er ólokið, og eiga því ágæta möguleika á að vinna sér sæti í 1. deild í fyrsta skipti, ef Íslandsmótinu verður haldið áfram.

Hermann er einn reyndasti knattspyrnumaður Íslands fyrr og síðar en hann lék í fimmtán ár á Englandi með Crystal Palace, Brentford, Wimbledon, Ipswich, Charlton, Portsmouth og Coventry, og þjálfaði síðan ÍBV og Fylki eftir að ferlinum lauk. Hann var aðstoðarstjóri enska C-deildarliðsins Southend á síðasta tímabili. Hermann lék 89 landsleiki og er með leikjahæstu landsliðsmönnum Íslands.

„Ég er ánægður í dag,“ segir Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar í Vogum, um ráðninguna. „Hermann er metnaðarfullur og faglegur í allri sinni vinnu og viðhorfi til félagsins. Það ríkir mikil ánægja með hans störf meðal leikmanna, stjórnarliða sem og allra Vogabúa. Þrátt fyrir mikla óvissu með mótamálin þá erum við staðráðin að halda áfram á sömu braut hver svo sem ákvörðun KSÍ verður með framhaldið,“ sagði Marteinn í tilkynningu frá félaginu.

„Það tókst að kveikja vel í þessu í sumar, það er frábært að fá að starfa með öllu þessu fólki sem brennur af ástríðu fyrir félagið og samfélagið. Þrátt fyrir að tveir leikir séu eftir og mikil óvissa með framhaldið þá er árangurinn til þessa frábær, ég á ekki von á öðru en að með stuðningi bæjarbúa og annarra þá höldum við áfram þeirri vinnu á næsta ári,“ sagði Hermann Hreiðarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert