„Við viljum ljúka mótinu“

Frá leik Víkings og KA.
Frá leik Víkings og KA. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Mikil óvissa ríkir um Íslandsmótið í knattspyrnu þessa dagana eftir að íslensk stjórnvöld framlengdu æfinga- og keppnisbann á höfuðborgarsvæðinu um tvær til þrjár vikur.

Nýjar reglur taka gildi á morgun þar sem áfram verður æfinga- og keppnisbann á höfuðborgarsvæðinu en félög úti á landi mega hins vegar æfa áfram og keppa ef ekki koma fleiri en fimmtíu saman. Áhorfendur eru hins vegar ekki leyfðir þar.

Íslenskur toppfótbolti, ÍTF, sendi frá sér yfirlýsingu fyrir rúmri viku þar sem kapp var lagt á að klára Íslandsmótið en ÍTF er hagsmunasamtök félaga í efstu deildum karla á Íslandi.

„Við sendum frá okkur yfirlýsingu fyrir viku um að við vildum ljúka Íslandsmótinu,“ sagði Haraldur Haraldsson, formaður ÍTF, í samtali við Morgunblaðið í gær. „Sú ályktun var byggð á þeim upplýsingum sem lágu fyrir frá stjórnvöldum á þeim tiltekna tímapunkti.

Við höfum ekki ályktað neitt frekar síðan en það er alveg ljóst að það eru mjög skiptar skoðanir um það hvað eigi að gera varðandi næstu skref. Staðan sem uppi er núna er því mjög erfið.“

Haraldur er framkvæmdastjóri Víkings úr Reykjavík og sjálfur vill hann ljúka tímabilinu með því að spila alla leiki.

„Ég hef verið talsmaður þess að ljúka Íslandsmótinu á knattspyrnuvellinum á meðan það er hægt. Ég lít á reglugerðina, sem KSÍ setti vegna kórónuveirufaraldursins, sem okkar siglingaplagg í þessu og það er ennþá hægt að ljúka mótinu miðað við hana.

Það þarf hins vegar að fara vel yfir nýjustu reglur og fyrirmæli stjórnvalda, vega þau og meta, áður en einhver ákvörðun verður svo tekin. Ef það er tekin ákvörðun um að ljúka mótinu þarf það að liggja alveg ljóst fyrir að það verði hægt innan þess tímaramma sem gefinn hefur verið upp.“

Nánar er rætt við Harald í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »