Allt kapp lagt á að ljúka Íslandsmótinu

KSÍ leggur allt kapp á að klára Íslandsmótið.
KSÍ leggur allt kapp á að klára Íslandsmótið. mbl.is/Árni Sæberg

KSÍ stefnir á að ljúka Íslandsmótinu 2020 í knattspyrnu en þetta kom fram í fréttatilkynningu sem knattspyrnusambandið sendi frá sér í dag.

Markmiðið er að ljúka keppni í öllum deildum að því gefnu að takmarkanir á æfingum og keppni verði afnumar eigi síðar en 3. nóvember næstkomandi. Þá verður allri keppni hætt í bæði yngri flokkum og eldri flokkum. 

KSÍ mun kynna nýja leikaniðurröðun á morgun en í tilkynningu KSÍ kemur fram að leitað verði allra leiða til þess að ljúka mótum í meistaraflokki samkvæmt mótaskrá. Sömu sögu er að segja um stjórn ÍTF sem hefur ályktað á sama veg.

Þá er óvissa um framtíð bikarkeppninnar og verður ákvörðun tekin um hana á næstu dögum.

Standi reglur yfirvalda ekki í vegi fyrir því að unnt verði að hefja keppni að nýju í byrjun nóvember munu KSÍ og aðildarfélögin vinna samkvæmt öllum reglum sem settar verða af heilbrigðisyfirvöldum og kappkosta um að fylgja áfram ítrustu sóttvarnarúrræðum,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Frá stjórn KSÍ:

Það er ljóst að ákvörðunin um að halda áfram keppni er tekin á erfiðum tímum í samfélaginu. Keppnistímabilið hefur reynt á aðildarfélögin og iðkendur okkar sem og sjálfboðaliða. Á sama tíma höfum við staðið undir þeim áskorunum sem við höfum þurft að takast á við saman og notið fótboltans á þessum erfiðu tímum. Það er í þeim anda sem að við teljum mikilvægt að við klárum tímabilið í öllum deildum þar sem skýr niðurstaða liggur ekki fyrir í deildakeppninni.

Það reynir á okkur í knattspyrnuhreyfingunni eins og samfélagið allt en við vonumst til þess að í góðu samráði og samkvæmt reglum heilbrigðisyfirvalda takist að finna leiðir til þess að ljúka deildarkeppninni fyrir 1. desember. Við stöndum saman þegar á reynir og látum úrslitin ráðast á vellinum ef mögulegt er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert