Annað smit í starfsliði Íslands

Leikmenn íslenska karlalandsliðsins fagna eftir 2:1-sigur gegn Rúmeníu á Laugardalsvelli …
Leikmenn íslenska karlalandsliðsins fagna eftir 2:1-sigur gegn Rúmeníu á Laugardalsvelli í undanúrslitum umspils fyrir EM hinn 8. október síðastliðinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsmaður knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, greindist með kórónuveiruna á mánudaginn síðasta samkvæmt heimildum mbl.is.

Umræddur starfsmaður er í starfsliði íslenska karlalandsliðsins og því ljóst að hann hefur smitast af liðsstjóra íslenska liðsins sem greindist með kórónuveiruna fyrir leik Íslands og Belgíu í Þjóðadeild UEFA sem fram fór á Laugardalsvelli 14. október síðastliðinn.

Starfsmaðurinn sem greindist á mánudaginn er nú í einangrun en allir starfsmenn KSÍ voru prófaðir fyrir veirunni eftir að liðsstjóri karlalandsliðsins greindist.

Aðeins einn úr starfsliðinu reyndist smitaður af þeim sýnum sem voru tekin og er hann nú í einangrun eins og áður hefur komið fram.

Ekki er víst hvort þetta muni hafa áhrif á landsliðsmenn Íslands sem tóku þátt í leiknum gegn Belgíu en knattspyrnumenn erlendis eru skimaðir mjög reglulega fyrir veirunni.

Leikmaður U21-árs landsliðs Íslands greindist með kórónuveiruna á dögunum eftir leik Íslands og Lúxemborgar í undankeppni EM í Lúxemborg og þurftu margir leikmenn U21-árs landsliðsins að fara í sóttkví.

Samkvæmt heimildum mbl.is er það ekki staðan með leikmenn A-landsliðs karla, ekki eins og staðan er í dag í það minnsta.

mbl.is