Sanngjarnasta niðurstaðan að klára mótið

Sveinn Þór Steingrímsson er hér fyrir miðju.
Sveinn Þór Steingrímsson er hér fyrir miðju. Ljósmynd/Magni

Sveinn Þór Steingrímsson þjálfari karlaliðs Magna í fótbolta er afar sáttur með ákvörðun KSÍ að stefna að því að klára Íslandsmótið, en knattspyrnusambandið greindi frá ákvörðuninni í gær. Magni er í fallsæti með tólf stig, eins og Leiknir F. og Þróttur R., þegar tvær umferðir eru eftir af Lengjudeildinni, 1. deild. 

„Við fögnum þessu. Við viljum klára mótið, það er sanngjarnasta niðurstaðan. Það væri mjög óeðlilegt ef ég vildi ekki klára mótið, miðað við þá stöðu sem við erum í. Mögulega værum við að tala um annað ef við værum um miðja deild en við verðum að sýna liðum sem eru ekki í eins góðri stöðu stuðning,“ sagði Sveinn í samtali við Valtý Björn Valtýsson í útvarpsþættinum Mín skoðun á Sport FM. 

Lið á landbyggðinni hafa æft síðustu vikur á meðan lið á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki fengið að æfa. Sveinn finnur til með liðunum á höfuðborgarsvæðinu. „Það er leiðinlegt að liðin fyrir sunnan fái ekki að æfa, ég finn til með þeim. Mér finnst það eðlileg umræða að þau þurfi aðeins lengri tíma til undirbúnings,“ sagði Sveinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert