Mega ekki æfa með Val eftir heimkomuna

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er ein af sjö leikmönnum Vals sem …
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er ein af sjö leikmönnum Vals sem eru með íslenska landsliðinu í Gautaborg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðskonurnar sjö sem leika með knattspyrnuliði Vals og eru nú staddar í Gautaborg með íslenska kvennalandsliðinu til undirbúnings fyrir leikinn mikilvæga gegn Svíum næsta þriðjudag geta lítið sem ekkert æft með Val fram að Meistaradeildarleiknum gegn HJK frá Finnlandi sem á að fara fram á Hlíðarenda 3. eða 4. nóvember.

Þegar þær snúa aftur til Íslands eftir leikinn 28. október þurfa þær að fara í fimm daga sóttkví og mega þessar sjö þá aðeins æfa saman sjálfar í hópi en ekki koma saman með öðrum leikmönnum Valsliðsins fyrr en 2. nóvember, einum eða tveimur dögum fyrir Evrópuleikinn.

Leikmennirnir eru Sandra Sigurðardóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Hlín Eiríksdóttir, Elín Metta Jensen, Guðný Árnadóttir og Elísa Viðarsdóttir.

Valsmenn bíða annars eftir staðfestingu á að þeir fái undanþágu frá heilbrigðisráðuneytinu fyrir því að spila leikinn gegn HJK á heimavelli. Fáist sú undanþága ekki þarf að leika leikinn erlendis, á heimavelli HJK í Helsinki eða á hlutlausum velli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert