Stórsigur hjá Svíþjóð í riðli Íslands

Jonna Andersson lék allan leikinn með sænska liðinu.
Jonna Andersson lék allan leikinn með sænska liðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svíþjóð vann afar sannfærandi 7:0-sigur á Lettlandi í F-riðli í undankeppni EM kvenna í fótbolta í kvöld. Er Ísland í öðru sæti sama riðils. Eliza Spruntule og Karlina Miksone leikmenn ÍBV léku með Lettum í leiknum en Lettar söknuðu þriðju Eyjakonunnar, Olgu Sevcovu, sem hefur verið þeirra besti leikmaður í undankeppninni.

Eins og við var að búast voru yfirburðir sænska liðsins miklir og kom fyrsta markið strax á 1. mínútu er Lina Hurtig kom boltanum í netið. Anna Anvegard, Olivia Schough, Magdalena Eriksson og Paulina Hammarlund bættu allar við mörkum fyrir hálfleik og var staðan í leikhléi 5:0. 

Pauline Hammarlund skoraði sitt annað mark og sjötta mark Svía á 54. mínútu og varamaðurinn Filippa Curmark bætti við sjöunda markinu á 86. mínútu og þar við sat. 

Svíþjóð er með 16 stig, þremur stigum meira en Ísland sem á leik til góða, en liðin mætast í Svíþjóð næstkomandi þriðjudag í leik sem gæti reynst algjör úrslitaleikur um efsta sæti riðilsins.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert