Upp um tvö sæti á FIFA-listanum

Aron Einar Gunnarsson, Guðlaugur Victor Pálsson og Arnór Ingvi Traustason …
Aron Einar Gunnarsson, Guðlaugur Victor Pálsson og Arnór Ingvi Traustason fagna sigrinum gegn Rúmeníu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karlalandsliðið í knattspyrnu fer upp um tvö sæti á FIFA-listanum sem var uppfærður í morgun. 

Er Ísland nú í 39. sæti af 210 þjóðum á listanum en liðið lék þrjá leiki í október. Vann Rúmeníu í umspili fyrir EM en tapaði fyrir Danmörku og Belgíu í Þjóðadeildinni. Belgía er einmitt í efsta sæti listans eins og áður. 

Ísland mætir Ungverjalandi í nóvember í umspilinu og verður það hreinn úrslitaleikur um hvort liðið kemst í lokakeppni EM sem fram fer næsta sumar. Ungverjaland er í 47. sæti listans og hækkar um fimm sæti. 

Engar breytingar eru á fimm efstu sætum listans en þar eru Belgía, Frakkland, Brasilía, England og Portúgal. Spánn fer upp fyrir Úrúgvæ og í sjötta sætið og Argentína fer uppfyrir Króatíu og í áttunda sætið.

Rúmenar sem voru sjö sætum fyrir ofan Íslendinga fyrir leikina í október falla mest af liðum í efri hluta listans en þeir detta niður um tíu sæti og eru í 44. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert